Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1966, Qupperneq 58
56
MÚLAÞING
að flytja símaefni, staura og vír, inn á fyrirhugaða símalínu á
Smjörvatnsheiði. Jörgen lagði sig fram í þessu manna mest, en
einkum voru það þeir Björn og Sigmar, sem stóðu í flutningunum,
einkum á staurunum, en Jörgen fór margar lestaferðir með annað
efni, vír, króka og kúlur. Fyrir þennan flutning var greitt svo
smánarlega lítið, að þeir, sem í þeim stóðu, töpuðu á þeim, og
var það samkvæði Jörgens og föður míns, Gísla á Egilsstöðum,
er einnig flutti allmikið af þessu efni, í minni áheyrn. Glaður ráð-
herrasendimaður, Björn í Grafarholti, ferðaðist um línusvæðið og
reyndi að semja um þessa flutninga og naut til þess atfylgis „þjóð-
holls“ verzlunarstj óra á Vopnafirði, að greiða sem minnst fyrir.
Kom hann í Krossavík og gisti. Er hann ritaði endurminningar
um þessi afrek, gat hann þess, að hann hefði sofið í trekk í Krossa-
vík og fengið kvef, sem hann kallaði síðan Krossavíkurkvefið.
Aðra viðurkenningu fékk Jörgen ekki fyrir starf sitt. Var gefin út
minningargrein um lagningu landssímans og ekki minnzt á einn
einasta mann, er í þessu starfi stóð. Það hafði allt verið unnið með
kjaftinum á skrifstofum, og Björn þó mest, með Krossavíkurkvefi,
en 1000 krónurnar, sem Hannes lofaði honum í premíu, var hann
svikinn um!
Vopnafjörður er stór sveit, og Jörgen hafði nú mikil umsvif í
sveitarmálunum, enda kom nú fleira til kasta sveitarstj órnar en
áður, eins og framkvæmd fræðslulaganna 1907. Búskapurinn hvíldi
á þeim systkinum, sem öll voru heima að mestu á þessum árum. En
11. nóvember 1911 kvæntist Sigmar Sigríði Grímsdóttur bónda í
Hvammsgerði Grímssonar, mikilli gervileikastúlku, og hóf hann
búskap á móti föður sínum. Jóhanna giftist sama dag Sigurði
johnsen kennara á Vopnafirði. Guðrún hafði gifzt fyrr á því ári
Steindóri Kristjánssyni, og bjuggu þau fyrst á Skjaldþingsstöðum.
Litlu síðar réðst Guðfinna í burtu, og Björn kvæntist Elísabetu
Grímsdóttur, systur Sigríðar, er Sigmar átti. Settu þau bú á Ytra-
Núpi, og 1914 giftist Ásrún Olafi frá Bustarfelli, Metúsalemssyni,
og bjuggu þau fyrst á Bustarfelli, en síðar á Vopnafirði, og var
hann þar kaupfélagsstjóri.
Parturinn, sem getið hefur verið um, var í sérstakri ábúð, en
jafnan til sölu, en Jörgen treystist ekki til að festa kaup á honum,