Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1966, Side 139
MÚLAÞING
135
arn.ir höfðu stýri með langri stýrissveif, og var alltaf stýrt í róðri.
Bátnum fylgdi svokallað spækjuspil. Þetta var nærri sívalt kefli, sem
náði yfir bátinn miðskips, í endum þess voru járntollar, sem féllu
í járnlegur í borðstokkum, á endum voru járngjarðir til að varna
klofnun. Nokkuð frá báðum endum á keflinu voru ferköntuð göt
í gegn og stóðust eigi á í keflinu, þannig að þegar spækjunum var
stungið í gegnum þau, mynduðu þær kross, önnur lárétt en hin lóð-
rétt. Með þessum spækjum var spilinu snúið, þannig að fjórir menn
spiluðu, tveir og tveir hvor á móti öðrum. Tóinu var þrívafið um
keflið, og einn maður tók af. Heldur var aðdráttaraðferð þessi
seinvirk, en örugg. Notkun sveifarspils í nótabátunum var ófram-
kvæmanleg, því að hvergi var hægt að hafa þau, þar sem þau voru
ekki fyrir nót og árum. Spilkeflið og spækjurnar lágu undir nót-
inni í bátnum og strax sett í skorður, þegar búið var að kasta. Enn-
fremur var í bátnum rúlla, sem sett var á borðstokk, þegar nótin
var köfuð inn. Sömuleiðis nokkrir járnbentir trékútar, tó og dregg.
Frammi á stafnpalli lá langur og sterkur kaðall og fjórflauga
dregg á enda, sem hékk á borðstokk. Þetta voru landfesta nótabáts-
ins. Annar framáræðarinn var dreggmaður, það var hans hlutverk
að festa bátinn v.ið land, þegar kastað var. Oft kom það fyrir, að
hann varð að fara fyrir borð, þar sem vond var landtaka, og vaða
sjóinn upp undir hendur til lands með dreggið í fanginu, leita þar
að nothæfri festu, gæta þess, að ekki losnaði og færa ef með þurfti.
Þetta þótti illt verk og hraustum einum hent, enda þurftu dregg-
menn oft að húka tímum saman holdvotir og skjálfandi á landi,
þegar bátsfélagarnir sveittust á spilinu við aðdráttinn.
Þegar nótin var lögð í bátinn, var aðdráttartóið lagt fyrst í
löngum lykkjum miðskips á botninn, síðan var nótin lögð í lykkj-
um, sem náðu súða á milli, og var vandaverk að hlaða nótinni þann-
ig, að búlki væri ekki óhæfilega hár og nótin vel lögð til kasts.
Þessu verki stjórnuðu nótakastarar jafnan og bjuggu þannig sjálf-
ir í hendur sér. Korkateinninn var lagður skutmegin, og honum
kastaði stýrimaður eða nótabátsformaður, eins og hann var oftast
kallaður. Ég hef nú lýst nótabátnum allrækilega, tækjum hans og
áhöfn og verkskiptingu. Á nótabátnum voru oftast 8 menn, þó kom
það fyrir, að þeir voru aðeins 7.