Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Page 13
unga aldri. Mikið hefur breyst varðandi viðhorf og afstöðu fólks almennt
til kynferðisbrota síðan árið 1996 og á það við bæði innan kirkjunnar sem
og úti í samfélaginu. Frá því að biskupsmálið svonefnda komst í hámæli í
byrjun árs 1996 og til dagsins í dag hefur kirkjan verið að læra af reynslunni.
Fagráð kirkjunnar hefur unnið að því að bæta vinnubrögð varðandi meðferð
kynferðisbrotamála innan kirkjunnar, en starfsreglur kirkjunnar hafa verið
endurskoðaðar reglulega síðan þær tóku gildi í byrjun árs 1999. Umræðan
síðustu árin hefur, eins og búast mátti við, valdið því að fjöldi mála sem
vísað hefur verið til fagráðsins hefur margfaldast. I flestum tilfellum er
um að ræða gömul mál, jafnvel áratuga gömul. Brautryðjendastarf fagráðs
kirkjunnar og reynsla af meðferð kynferðisbrotamála hefur leitt til þess að
starf þess hefur orðið að fyrirmynd fyrir sambærilegt starf á öðrum vett-
vangi.4
í greinargerð með starfsreglum um meðferð kynferðisbrotamála innan
íslensku þjóðkirkjunnar, sem lögð var fram á Kirkjuþingi haustið 1998,
stendur m.a.:
Kirkjunni ber að leitast við að vera öruggur staður fyrir alla, þar sem hægt
er að treysta því að velferð einstaklingsins sé í öndvegi. Mikilvægt er að allir
geti treyst því að kirkjan umber undir engum kringumstæðum athæfi sem
hefur skaðleg áhrif á andlega og líkamlega velferð viðkomandi.5
En hvernig getur kirkjan orðið öruggur staður og hvað ber að gera til
þess að stuðla að því að hún verði það? Hér á eftir verður fjallað um það
sem gert hefur verið til þess að kirkjan verði þessi öruggi staður sem henni
ber að vera. Með því að setja sem markmið að kirkjan verði „öruggur staður
fyrir alla“, er gengið út frá því að við getum ekki gefið okkur að hún sé
það nú þegar. Að viðurkenna að kynferðisbrot geti átt sé stað innan veggja
kirkjunnar og að bæði vígðir og óvígðir þjónar hennar geti gerst sekir um
slík brot er mikilvægt skref í áttina að þessu markmiði. En reynslan hefur
sýnt að það þarf að gera meira og því hafa fleiri mikilvæg skref verið tekin
á þessari vegferð kirkjunnar í átt að settu marki.
4 Þar má t.d. nefna fagráð innanríkisráðuneytisins, sem sett var á stofn til að fjalla um ásakanir vegna
ofbeldisbrota og kynferðisbrota „einkanlega hjá trúfélögum.“ Sjá: http://www.innanrikisraduneyti.
is/frettir/nr/27155
5 http://kirkjuthing.is/gerdir/1998/18
11