Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Side 58
mannleg tilfmningatengsl heldur en trúarkenningar, jafnvel þótt það telji sig
kristið. Hún kýs að lýsa þessari tilhneigingu þannig að fólk „trúi á að tilheyra“
(e. believing in belonging).28 Day skoðar sérstaklega það sem hún komst að
varðandi ungt fólk þótt þátttakendur í rannsókn hennar væru á öllum aldri.
Hún heimsótti sérstaklega þrjá skóla og fylgdist bæði með umræðu nemenda
og tók viðtöl við unglinga á aldrinum 14-18 ára. Hún segist hafa komist
að svipuðum niðurstöðum og sjá megi í stórum innlendum og erlendum
rannsóknum um ungt fólk og trúarbrögð. Þær rannsóknir sem hún gerði
samanburð við voru frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu og sýndu
allar að ungt fólk sækir merkingu, hamingju og siðferðileg viðmið í félagsleg
tengsl. Höfúndar þessara rannsókna bættu hins vegar gjarnan við efasemdum
og jafnvel áhyggjum af því hvort þessi trú sé nægilega grundvölluð í stærri
frásögnum merkingar og siðferðis. Day er aftur á móti þeirrar skoðunar að trú
ungs fólks sé miklu fremur grundvölluð á ólíkan hátt heldur en ófúllnægjandi.
Hún byggir þá skoðun á því að í rannsóknum sínum, einkum meðal ungs
fólks, hafi niðurstöðurnar ekki verið þær að trú (e. belief) væri fjarverandi í
lífi þess, heldur væri hún staðsett upp á nýtt á félagslegu sviði þar sem hún
er fjölradda, innbyrðis háð, tilfinningalega skuldbundin og lýsandi fyrir
reynsluna af því að tilheyra. Unga fólkið sem hún ræddi við var grundvallað
í fjölskyldu- og vinasamböndum og tengslanetum. Þessar niðurstöður bendi
til þess að ungt fólk snúi sér að fjölskyldu, vinum og öðrum félagslegum
samböndum sínum sem fullgildum vettvangi til að fmna stað bæði trú, áhrifa-
völdum og hinu yfirskilvitlega (e. transcendence). Niðurstöðurnar sýni að trú
ungs fólks hafi tilhneigingu til að vera sameiginleg smíð í gegnum þátttöku
með fjölskyldu og vinum í að skapa og viðhalda trúnni.29 Að mati Day setur
þetta spurningamerki við hugmyndir um trú sem einkamál eða kenningar um
„að trúa án þess að tilheyra“. Niðurstöður hennar bendi til að það að trúa og
að tilheyra sé innbyrðis háð hvort öðru, með trúna skýrt staðsetta, mótaða
og ástundaða á félagslegum vettvangi. Samt sem áður eru niðurstöður hennar
í samræmi við margar hliðstæðar rannsóknir að því leyti að virka guðstrú
sé ekki að finna hjá flestum ungmennanna sem tóku þátt í rannsókninni.
Hún dregur aftur á móti aðrar ályktanir af sínum rannsóknargögnum en
margir aðrir, sem álykta gjarnan sem svo að viðhorf ungs fólk einkennist
af einstaklingshyggju og séu ekki grundvölluð í viðameiri frásögnum trúar-
28 Day 2009, 2011.
29 Day 2009.
56