Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Side 89
í dag, fyrir börnin sem fæðast á morgun. Hann vill ekki að fortíð sín verði
framtíð þeirra.“26
Biblían og Wiesel
Réttilega hefur verið sagt að Elie Wiesel hafi gegnt lykilhlutverki í að koma
guðfræðilegum spurningum sem helförin vakti á framfæri við almenning.27
Sjálfur segist hann aldrei halda námskeið öðru vísi en að fyrsti tíminn
fjalli um Biblíuna: ,Ætíð þegar ég kenni verð ég að byrja á biblíulegum
texta. Ef ég kenni um þjáninguna þá byrjum við á Job. Ef viðfangsefnið er
kærleikur þá byrjum við á Ljóðaljóðunum; ef það er örvænting, þá er það
Prédikarinn.“28
Ekki þarf lengi að lesa í bókum Wiesels til að sjá að Biblían (þ.e. hin
hebreska Biblía = Gamla testamentið) gegnir stóru hlutverki í skrifum hans.
I hans fyrstu og þekktustu bók, Nótt, vísar hann með minnistæðum hætti
til Jobsbókar með þessum orðum: „...Eg var eins og Job! Ég neitaði ekki
tilvist Hans, en ég efaðist um takmarkalaust réttlæti hans.“ 29 Wiesel hefur
sagt að hann þekki Jobsbók betur en sínar eigin bækur.30 Og eins og Job
tekur Wiesel að deila við Guð, krefja hann svara og ekki nóg með það
heldur ákæra hann: „Ég gat ekki syrgt lengur. Því var öfugt farið, ég var
ákærandinn, Guð sakborningurinn.“31 Einmitt lögfræðilegt orðalag setur
svipmót á Jobsbók.32
Og ekki þarf neinum að koma á óvart að maður sem alist hefur upp við
gyðinglega trúarhefð skuli samsama sig með Job eftir reynslu af helförinni.
Jobsbók fjallar, sem kunnugt er, um þjáningu hins réttláta manns sem í
fyrstu (í formálanum) tekur áföllunum af æðruleysi en deilir svo við Guð
og vini sína, talsmenn endurgjaldskenningarinnar, í meginhluta bókarinnar,
ljóðaköflum hennar.33 En hinn biblíulegi efniviður Nœtur Wiesels er ekki
26 Wiesel, Elie 2008: The Night Trilogy. Preface to the New Translation, s. 13.
27 M.A. Sweeney 2008, Reading the Bible after the Shoah, s. 14.
28 Wiesel, Elie and Beal, Timothy K 2005: Matters of Survival: A Conversation, í: Lindafeldt, Tod
(ritstj.) 2000: Strange Fire. Reading the Bible after the Holocaust, s. 29.
29 E. Wiesel, 2009 Nótt, s. 74.
30 Wiesel, Elie 1999: And the Sea is Never Full, s. 111.
31 E. Wiesel, 2009 Nótt, s. 108.
32 Það hefur Tryggve N.D. Mettinger m.a. bent á. Sjá Mettinger 1987, Namnet och narvaron, s.
169-191.
33 Hin útbreidda skoðun um „þolgæði" sem megineinkenni Jobs á aðeins við um formála ritsins. Sjá
t.d. B. W. Anderson, 1988: The Living World ofthe Old Testament, s. 589. í meginhluta Jobsbókar
er þolgæði hreint ekki einkenni hans.
87