Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Qupperneq 160
velji að ganga inn í ríki dauðans, en sá sem megni að losna undan þjökun
líkamans, með því að lifa skírlífi, hann brjóti vald dauðans á bak aftur.22
Svipuð viðhorf, og raunar enn gagnrýnni í garð hjónabandsins, má finna
á fjórðu og fimmtu öld, hjá rómverska guðfræðingnum Híerónýmusi (um
345-420) sem er hvað þekktastur fýrir að þýða Biblíuna af grísku yfir á
latínu (VWgtfta-þýðingin). Híerónýmus skrifaði varnarrit gegn Helvidíusi
þar sem hann hélt fram skírlífi Maríu guðsmóður.23 í mörgum smáritum
ræðir hann kosti skírlífis á kostnað hjónabandsins og vísar bæði til skírlífis
Maríu meyjar og Jesú og undirstrikar í því sambandi orð Páls postula í
Korintubréfinu sem áður hafa verið rædd. I einu smárita sinna, bréfi til
meyjarinnar Eustochium, beinir hann orðum sínum til ógiftra meyja og
hvetur þær til skírlífis og að ganga hiklaust gegn vilja foreldra sinna ef þeir
vilji gifta þær. Við Eustochium segir hann: „Enginn skyldi koma í veg fýrir
að þú vígir líf þitt skírlífi - ekki móðir þín, systir, ættingi, bróðir. Drottinn
þarfnast þín.“24 Ef þessi skyldmenni láti sér ekki segjast hvetur hann hana til
að hræða þau með sams konar plágum og lýður faraós fékk að reyna þegar
faraó neitaði að leyfa ísraelsmönnum að tilbiðja Guð sinn. I löngu máli og
með fjölda tilvísana í gyðingleg og kristin rit, aðgreinir Híerónýmus skírlífi
frá hjónabandinu og telur það æðra lífsform fýrir þá sem vilja lifa í eftir-
fýlgd við Jesú. Jafnvel á himnum telur hann að hinni líffræðilegu Qölskyldu
hinnar hreinu meyjar (Eustochium) muni verða haldið aðskilinni frá nýrri
andlegri fjölskyldu hennar: „Hin líkamlega móðir þín og hin andlega móðir
þín - þær verða hvor í sínum hópnum. Önnur þeirra mun fagna yfir að
hafa alið þig, hin mun gleðjast yfir að hafa kennt þér.“23
22 Sama rit, kafli XIV.
23 Helvidíus skrifaði smárit einhvern tíma fyrir árið 383 þar sem hann hélt því fram að María hefði
ekki verið skírlíf. Þessa skoðun studdi hann með tilvísun í Biblíuna þar sem segir að Jesús hafi
átt bræður og systur, þá væri ekkert yfirnáttúrulegt við getnað eða fæðingu Jesú. Þessu andmælti
Híerónýmus og taldi að Jósef hefði einnig verið skírlífur, sjá á slóðinni: The Perpetual Virginity
of Blessed Mary. Against Helvidius, http://www.ccel.org/ccel/schaff/npnf206.pdf [sótt 11. apríl
2012].
24 To Eustochium, kafli XXIV, sjá á slóðinni: http://www.ccel.org/ccel/schaff/npnf206.pdf [sótt 12.
apríl 2012].
25 Sama rit, kafli XXXXI. Sjá einnig Peter Brown, Body and Society, bls. 366-386.
158