Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Qupperneq 164
mannasetninga (sbr. lKor 7.17, 23). Ekki ósvipuð afstaða birtist í höfuð-
riti Kalvíns, Stofnanir hinnar kristnu trúar.39 Kalvín tekur undir gagnrýni
Lúthers á klausturlífið í rómversk kaþólskri birtingarmynd og hafnar allri
tvöfeldni hins kristna lífs þar sem sumir séu kallaðir til „sérstaks“ lífs til
að þjóna sérstakri og fullkomnari köllun en aðrir síður.40 í augum Kalvíns
er regla Guðs ein og sönn og sú sama fyrir alla.41 Líkt og í tilviki Lúthers
bendir þó fátt til að hann hafni þeirri hugmynd að Guð geti léð einstaka
manneskjum skírlífi sem sérstaka gáfu eins og eftirfarandi orð hans sýna
glöggt: „Þeir sem hafa hana (gáfuna), ættu að nota hana og ef þeir endrum
og sinnum finna íyrir freistingu holdsins þá skyldu þeir leita á náðir þess
sem einn gefur kraftinn til að standa gegn henni. Ef þeir öðlast hana ekki,
þá skyldu þeir ekki forsmá þá lækningu sem þeim er boðin. Þeim sem ekki
er gefið taumhald - þeir skyldu sannarlega hlýða orði Guðs og giftast.“42
Þessum orðum Kalvíns virðist því ekki beint gegn skírlífinu sem gjöf Guðs,
heldur fremur því skírlífi sem kaþólska kirkjan hafði lögleitt sem heit fyrir
allan þann fjölda sem gekk í klaustur: „Við erum mótfallnir skírlífisheitinu
vegna þess að það er á óréttmætan hátt litið á það sem tilbeiðslu (lat. cultus)
og á freklegan hátt lagt á fólk sem hefur ekki siðferðisþrek til þess að hafa
taumhald á sér.“43 Enginn vafi leikur á að Kalvín og Lúther gera mikið
úr hjónabandinu sem siðferðishugsjón og verðugri vegferð í eftirfylgd við
Jesú.44 Á svipaðan hátt og kristnir hugsuðir í fornöld gerðu, halda þessir
sextándu aldar kristnu frömuðir áfram að meitla og móta hinn siðferðilega,
kynferðislega taumhaldsramma sem Páll postuli lagði grunninn að á 1. öld
og tengja hann náið hinni kristnu eftirfylgd. Eini staðurinn fyrir kynlíf
er í hjónabandinu sem Guð hefur skapað fyrir manninn til að hafa hemil
á girndum sínum. Kynlíf utan hjónabands er fordæmt sem synd gegn
vilja Guðs sem skapað hefur kynlífið fyrir hjónabandið og flesta fýrir
hjónabandið. Aðeins örfáum gaf hann gáfuna að lifa einir og vera skírlífir.
39 John Calvin, Institutes ofthe Christian Religion [Institutio Christianae Religionis, 1559], þýðandi
Henry Beveridge, Peabody, Massachusetts: Hendrickson Publishers, 2008.
40 Sama rit, bls. 835.
41 Sama rit, bls. 839.
42 Sama rit, bls. 838-839.
43 Sama rit, sama stað.
44 Sjá Björn Björnsson, The Lutheran Doctrine of Marriage in Modern Icelandic Society, Oslo:
Universitetsforlaget og Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1971.
162