Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Page 165
Lokaorð
Sá kristni hugmyndaheimur sem hér hefur verið leitast við að varpa nokkru
ljósi á er ekki léttvægur og honum verður ekki auðveldlega skákað til hliðar.
Þótt fáheyrt sé nú um stundir að skírlífishugsjón í sinni hreinustu mynd
sé haldið að fólki, lifir hún enn og tengist gjarnan lífi þeirra sem eru ekki
í hjónabandi. Svipað má segja um kristnar hugmyndir um hið „rétta“ og
„ranga“ kynlíf, einnig þær eru ákaflega lífseigar: Hið rétta og eðlilega kynlíf
er enn sem fyrr fyrst og fremst staðsett innan hjónabandsins og hið ranga
og óeðlilega utan þess. Um það stendur styrinn, meðal annars, þegar tekist
er á um hjónaband samkynhneigðra innan kristinna kirkna, hvort kynlíf
samkynhneigðra sé þess eðlis að það hæfi hjónabandinu. Sú umræða verður
þó ekki tekin upp hér.45 Jákvætt svar evangelísk lúthersku þjóðkirkjunnar
hér á landi (2010) og nokkurra mótmælendakirkna erlendis við þeirri
spurningu felur í sér mikla stefnubreytingu því í rúm tvö þúsund ár hefur
kristin hefð haldið fast við þann skilning að allt kynlíf sem ekki geti borið
ávöxt í börnum sé afbrigðilegt og ónáttúrulegt. Mikill meirihluti kristinna
kirkna í heiminum stendur áfram vörð um þetta viðhorf og ber fyrir sig
hefðbundin, kristin, guðfræðileg rök: Hið rétta kynlíf sem ber ávöxt í
börnum á heima í hjónabandinu, þeir sem ekki eru hæfir til hjónabands,
eins og samkynhneigðir og annað hinsegin fólk, skulu lifa í ókvæni, og þeir
sem hafa fengið þá náðargjöf frá Guði, skulu vera skírlífir!
Útdráttur
Eftirfylgdin við Jesú er mikilvægt guðfræðilegt þema sem mikið hefur verið
fjallað um í kristinni guðfræðisögu. I greininni er sjónum beint að velþekktri
túlkun um þetta efni sem gengur út á að hin kristna eftirfylgd feli í sér
ókvæni og skírlífi fremur en að þeir sem taki kristna trú gangi í hjónaband
og stofni fjölskyldu. Þessi túlkun var algeng fyrr á öldum og á sér styrka
stoð í mikilvægum textum Nýja testamentisins. Greinarhöfundur færir rök
fyrir því að sögulega hafi verið litið á þessa túlkun sem hugsjón fremur en
reglu og telur að sú hugsjón lifi góðu lífi enn í dag, einkum í orðræðu um
ógift fólk og hinsegin fólk sem ekki lifi í hjónabandi.
Lykilorð: eftirfylgdin við Jesú, Nýja testamentið, hjónabandið, ókvæni,
skírlífi
45 Þessi umræða er tekin fyrir í: Sólveig Anna Bóasdóttir, Ást, kynlífog hjónaband.
163