Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Page 182
kvenna og skorti á trúverðugleika boðskapar hennar. Ótrúverðugleikinn
felst í ofuráherslunni á sérstöðu opinberunar Guðs í ákveðnum einstaklingi
á tilteknum tíma sögunnar, að mati Hampson, sem heldur því fram að
þetta standist ekki röklega skoðun. Dæmi um kvenguðfræðinga sem eiga
heima í næsta formgerðarflokki eru þær Rosemary Radford Ruether og
Carter Heyward. Báðar gagnrýna hugmyndina um sérstöðu opinberunnar
Guðs í Kristi og eru því sammála Hampson að vissu leyti, en velja að líta
svo á að hjálpræðisverk Jesú fjalli um að vera öðrum siðferðileg fyrirmynd.
Jesús er ekki einstæð fyrirmynd, en vissulega mjög góð fyrirmynd þar sem
boðskapur hans og gjörðir gengu þvert á viðteknar kvenfjandsamlegar hefðir
og sjónarmið hans tíma. Heyward hafnar hugmyndinni um guðdómlegt
hjálpræði Krists og beinir sjónum að mennsku Jesú í staðinn og merkingu
hennar nú um stundir. Hún hafnar niðurstöðum kirkjuþinga fornkirkjunnar
(s.s. Níkeu og Kalkedon) og álítur þau eiga þátt í að gera myndina af Jesú
fyrst og fremst andlega. Til þess að Jesús og boðskapur hans geti haft nokkra
hjálpræðislega merkingu fyrir fólk nú á tímum, þarf mennska hans að hafa
verið fullkomin, ekki guðdómur hans, heldur Heyward fram. Jesús barðist
gegn óréttlæti og fyrir réttlátum tengslum manna í millum. I verkum Jesú
sjálfs hafi þessi markmið „orðið hold“. Krossinn sé hins vegar tákn dauða
og þjáningar.
Arnfríður fellir sig hvorki við túlkun Hampson né Heyward þótt hún
finni ýmislegt gagnlegt í framlagi þeirra. Niðurstaða þeirra varðandi
guðfræðilega stöðu og hlutverk Jesú er meginástæðan. Það er ekki fyrr en
Elizabeth A. Johnson er kynnt til sögunnar að hlutirnir falla á réttan stað.
Johnson lítur bæði til hinna jákvæðu og neikvæðu hliða kristinnar hefðar.
Hún gagnrýnir misnotkun þess sem hún kallar yfirráðahefð og sýnir fram
á hvernig hún hefur stuðlað að útilokun kvenna frá hlutdeild í hjálpræðis-
verki Krists. Jafnréttishefðin, sem hún nefnir svo, hefur hins vegar ætíð
verið til staðar í kristninni en hún leggur áherslu á mennskuna. Því er það
mat Arnfríðar að hvorki sé nauðsynlegt að hafna guðdómi Krists, eins og
Heyward gerði né kristinni trú algerlega, líkt og Hampson. Arnfríður heldur
því fram, með stuðningi í Johnson, að hið upprunalega innihald kristins
boðskapar höfði jafnt til karla og kvenna og að Guð sé ekki upphafinn
heldur hafi hann þjáðst í Kristi og þjáist með mönnum í daglegri þjáningu
þeirra. Þessi túlkun gefi von inn í vonlausar aðstæður, því þjáningin sé ekki
síðasta orðið, heldur hafi Kristur risið upp frá þjáningu og dauða.
180