Orð og tunga - 01.06.1990, Blaðsíða 59
Sigrún Helgadóttir: Um Tölvuorðasafn
37
þeim ílokki er sennilega mótald fyrir modem. Enska orðið modem er stytting
á modulator/demodulator, þ.e. tæki sem mótar og afmótar merki. Ef búa
ætti til íslenskt íðorð sem segði alla þá sögu yrði það nokkuð langt. Þess vegna
kom fram sú hugmynd að bæta endingunni -ald aftan við stofninn í sögninni að
móta svo úr yrði mótald. Onnur leið væri að taka upp enska orðið nánast óbreytt
(sbr. 4. leið hér á undan) svo að úr yrði orðið módem. Margir nota það og finna
ekkert athugavert við það. Hins vegar finnur hver Islendingur að orðið er útlent.
I þessu sambandi er e.t.v. vert að benda á að orðanefnd rafmagnsverkfræðinga
greip til viðskeytisins -ald á undan okkur og myndaði m.a. orðið hitald fyrir heat
element og ferjald fyrir transducer. Við höfum í fáein skipti notað viðskeytið
-ald til að mynda heiti á tækjum. Um það eru þrjú dæmi í safninu: mótald,
pakkald og skjáald. Veriö getur að tölvunotendur séu ekki reiðubúnir að taka
við þessum boðskap orðanefndar, þó virðist sumum a.m.k. finnast orðið mótald
skárra en módem.
Samsetningar í Tölvuorðasafninu eru óteljandi og af ýmsum gerðum og hirði
ég ekki um að nefna dæmi um þær. En ég mun minnast aðeins á þann flokk sem
kalla mætti erlend lán með aðlögun. Eins og ég nefndi áðan hefur orðanefndin
ekki lista með orðmynduuaraðferðum á borðinu þegar verið er að leita að nýjum
íðorðum. Því er þeim aðferðum, sem hér hafa verið nefndar, alls ekki beitt eftir
sérstakri röð. Við reynum hins vegar alltaf fyrst að nota innlent efni ef þess er
nokkur kostur. Enska orðið code er bæði sögn og nafnorð. Nafnorðið er heiti
á ‘reglu sem varpar stökum eins mengis á stök annars mengis’ og sögnin þýðir
‘að umskrá gögn með því að nota þessa reglu’. Okkur tókst ekki að finna neinn
íslenskan stofn sem væri nothæfur í þessari merkingu og öllum þeim samsetning-
um sem á þurfti að halda. Þrautalendingin varð því sú að reyna að sníða enska
stofninn til. Ur því varð sögnin að kóta og karlkynsnafnorðið kóti. Við gátum
síðan notað þennan stofn í öllum samsetningum þar sem orðið code kom fyrir.
Annað dæmi um tökuorð er hvorugkynsorðið bœti sem er myndað sem hljóðlík-
ing við enska orðið byte sem er stytting á orðasambandinu by eight. Einnig
mætti benda á karlkynsorðið biti sem er notað sem þýðing á bit og er heiti á
tölustaf í tvíundakerfinu. Bit er stytting á binary integer en hér er um orðaleik
að ræða þar sem bit í ensku er ‘eitthvað lítið’. I íslensku er biti einnig eitthvað
lítið, en enska orðið bit og íslenska orðið biti eru áreiðanlega af sama stofni.
Enska og íslenska eru germönsk mál og mörg orð í þessum tveimur tungumálum
eru af sama stofni. Þess vegna er ekki óeðlilegt að ensku og íslensku íðorðin séu
keimlík þótt ekki sé um beina lántöku að ræða.
Ég mun nú reyna að skýra nánar hvað ég átti við með stöðlun orðaforðans
fyrr í erindinu. Þessi stöðlun er tvíþætt. I fyrsta lagi eru gerðar tillögur um heiti á
tilteknum hugtökum. Þegar tveir menn tala saman er æskilegt að þeir skilji hvor
annan. Orðanefndin hefur því raðað heitum í forgangsröð ef nauðsynlegt er talið
að fleiri en eitt heiti fylgi tilteknu hugtaki. Það sem fyrst er talið er aðalorðið sem
við mælum með að sé notað. Það verður síðan að koma í ljós hvort tölvunotendur
eru sammála. En við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm og nota þetta heiti
alltaf þegar það kemur fyrir í skilgreiningum og skýringum. Við getum ekki leyft
okkur nein frávik eða fjölbreytni í stíl því lesandinn á heimtingu á því að vita
nákvæmlega hvcið við er átt. Þess vegna má t.d. ekki nota ýmist hnappaborð eða