Orð og tunga - 01.06.1990, Side 29

Orð og tunga - 01.06.1990, Side 29
Kristján Árnason: Hin þrefalda eftirlíking 7 sé. Þessa má sjá mörg dæmi hjá ljóðskáldunum, en einkum á það þó við um skopleikina sem kenndir eru við Plátus og Terentíus. Það liggur raunar ekki alltaf í augum uppi, einnig á seinni tímum, hvar höfundarnafnið ætti helst að lenda, og því hafa hnyttnir menn fundið upp á því að nefna höfund hinnar vesturlensku útgáfu af kvæðabálknum fræga, Rúbajat, sem kominn er til okkar alla leið frá Persíu 11. aldar með viðkomu í Bretaveldi 19. aldar, nafninu Fitz- Omar. En Fitzgerald sá sem þar kom við sögu sem milliliður og auðkenndi raunar gerð sína af kvæði Omars Kajam með því skringilega orði „transmogrification" hefur orðið fyrir talsverðu aðkasti og honum borið á brýn að hafa falsað innihald kvæðisins og fært einum um of í átt til nautnahyggju, efnishyggju og fagurkera- háttar 19. aldar í Evrópu. Þó er það trúlega einmitt í krafti þess arna að kvæðið hefur notið slíkra vinsælda hér á landi að hver þýðandinn af öðrum hefur fundið sig knúinn til að þýða þessa gerð Fitzgeralds. Af svipuðum toga og stælingar og oft þáttur þeirra eru svonefndar staðfœrslur eða heimfærslur sem tíðkast hafa í ýmsum myndum jafnt hér á landi sem annars staðar. I þýðingu fornra helgirita þykir ekkert sjálfsagðara en að nefna sjálfan myrkrahöfðingjann Miðgarðsorm eða eitthvað í þeim dúr, og Jón Þorláksson, í margnefndri þýðingu sinni á Paradísarmissi, er ekkert feiminn við að læða nor- rænum goðheimi inn í það merkilega samsull hebreskrar og grískrar goðafræði sem þar er fyrir. En það eru einkum skopleikir sem bjóða upp á heimfærslur þar sem þeir skírskota oftast beinna til samtíma síns en aðrar bókmenntir. Þetta á ekki síst við um skopleiki Aristófanesar hins forngríska. Ef koma á mergjaðri fyndni hans til skila á okkar tímum þarf þýðandi að taka sér ýmis leyfi og bessa- leyfi til að vísa stöðugt til síns eigin samtíma og vera fundvís á hliðstæður og tengiliði milli hans og hins upprunalega umhverfis þar sem þessir tímar geta mæst á miðri leið. En ekki virðast þó allir samtímamenn okkar kunna jafn vel að meta slíkt eftir viðbrögðum sumra að dæma sem fundu að því eftir sýningu á einu leikriti hans hér að Afródíta var nefnd Freyja og Príapos völsaguð Freyr en aþenskar konur í hjónabandsverkfalli líktu sér við freðýsur, sem eru auðvit- að alíslenskt fyrirbrigði. Það er engu líkara en að listnautn sumra sé talsvert háð þeirri tilfinningu að þeir séu að meðtaka eitthvað ósvikið eftir viðurkenndan höfund frá viðurkenndu tímabili, enda féllu og kvæði Ossíans, sem höfðu farið sigurför um alla Evrópu og verið þýdd af höfuðskáldum allt frá Goethe til Jónas- ar Hallgrímssonar og Gríms Thomsens, allmikið í áliti eftir að upp komst um það að ljóðin voru ort af samtímamanninum Macpherson en engum fornkeltneskum kvæðamanni. Af öllu þessu má sjá að vegur þýðandans getur stundum verið krókóttari en gefið var í skyn hér í upphafi og þar geta leynst jafnt ýmsar freistingar sem gildrur og gryfjur sem falla má í hæglega. „Traduttore traditore“ segja ítalir, og sá sem ætlar að snara því spakmæki yfir á annað mál, eins og við hæfi er á ráðstefnu um þýðingar, rekur sig óþyrmilega á sannleiksgildi þess, því orðrétt þýðing þess „þýðandi svikari“ svíkur okkur um þann orðaleik sem í orðunum felst og fylgir hugsuninni í þeim eftir, þannig að fleyg orð verða vængstýfð, en hins vegar er hætt við að þýðing sem reyndi að ná orðaleiknum yrði langsótt og ónákvæm, sem einnig mætti telja svik. Þýðandinn verður sem sé að kunna þá

x

Orð og tunga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Orð og tunga
https://timarit.is/publication/1210

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.