Orð og tunga - 01.06.1990, Blaðsíða 67
Stefán Briem: Vélrænar tungumálaþýðingar
45
DLT-þýðingarkerfið
DLT er skammstöfun á nafninu Distribuita Lingvo-Tradukado á esperanto eða
Distributed Language Translation á ensku.
Helsta sérkenni DLT-þýðingarkerfisins er hlutverk millimálsins, en sem milli-
mál varð fyrir valinu alþjóðamálið esperanto. Allar þýðingar milli þjóðtungna
liggja gegnum millimálið. DLT er því venjulega flokkað sem millimálskerfi, þótt
leiða megi að því nokkur rök að í rauninni sé um að ræða tvær aðskildar þýð-
ingar þegar þýtt er milli þjóðtungna, aðra af frummálinu á esperanto og hina
af esperanto á viðtökumálið. Nafn þýðingarkerfisins vísar til þess að þessi tvö
skref í þýðingunni geta farið fram með löngu millibili og á mismunandi stöðum,
jafnvel sitt í hvoru landi, eða m.ö.o. að þýðingin er dreifð bæði í tíma og rúmi.
Öll tungumál eru hlutgeng í DLT-kerfið. Á þetta er lögð áhersla þegar í
upphafi með því að hefja vinnslu á málum eins og japönsku, finnsku, pólsku og
bengölsku auk germanskra og rómanskra tungumála.
Einn helsti kostur þess að nota millimál er sá að fyrir hverja þjóðtungu þarf
aðeins að sinna þýðingu af henni á millimálið og af millimálinu á þjóðtunguna.
Hugmyndin um millimál er síður en svo ný og um það langar mig að vitna aftur
í Alþýðublaðsgreinina frá 1958. Þar segir orðrétt:
Því má bæta við, að í fjölþýðingarvélum yrði innsetta málið fyrst
þýtt á einskonar „alþjóðamál“, sennilega kínversku, því það er mjög
rökrænt tungumál, einfalt að myndun og málfræði. Með því að styðja
á hnapp, væri síðan hægt að þýða úr því og á svo mörg útsett mál,
sem vera skal.
Annar mikill kostur sem fylgir því að nota mannamál eins og esperanto sem
millimál er sá mikli sparnaður sem næst með því að geta leyst flest merkingar-
fræðileg vandamál sameiginlega á millimálinu í stað þess að þurfa að fást við
þau á hverri þjóðtungu fyrir sig.
Og í þriðja lagi má nefna þá kosti esperantos umfram önnur tungumál að
auk þess að vera einkar rökrænt mál með einfalda málfræði án undantekninga
þá gætir mun minna margræðni í esperanto en í öðrum tungumálum.
Varðandi gæði þýðinganna hafa forsvarsmenn DLT-kerfisins sett því það
markmið að þýða samfellt ritað mál milli tungumála þannig að þýðingin verði
málfræðilega rétt og að efni frumtextans komist til skila á viðtökumálinu.
Þessu markmiði ætla þeir að ná á síðasta áratug 20. aldar með hálfsjálfvirkri
þýðingu, en með því er átt við að fyrri hluti þýðingarinnar, af frummálinu á
esperanto, gerist ekki að öllu leyti sjálfvirkt heldur leiti tölvan eftir úrskurði
þess sem matar hana á frumtexta, þegar hún ræður ekki sjálf við að leysa úr
margræðni textans. Síðari hluti þýðingarinnar á hins vegar að vera algjörlega
sjálfvirkur, af esperanto á viðtökumálið. En forsenda þess er sú að millimálið sé
laust við margræðni. Til þess að uppfylla þá kröfu hefur þurft að gera smávægi-
legar breytingar frá réttu esperanto, en þær eru ekki meiri en svo að esperantistar
eiga auðvelt með að skilja þá mállýsku.
Við hönnun DLT-þýðingarkerfisins er einkum miðað við að það verði notað
í alþjóðlegu tölvuneti til að miðla upplýsingum til notenda á móðurmáli þeirra.