Ráðunautafundur - 20.02.1996, Side 68
60
má t.d. nefna svokallaðan vírlás sem gerir það að verkum að mun fljótlegra er að festa vírana á
staurana heldur en venjulega reka- eða harðviðarstaura. Það er því varla hægt að yfirfæra eldri
vinnumælingar yfir á uppsetningu girðinga þar sem þetta nýja efni er notað.
Sumarið 1995 var mæld vinna við uppsetningu á um 5,6 km af rafgirðingum á Hauka-
dalsheiði, og um 2,4 km af net-/gaddavírsgirðingum með járnstaurum í Hvalfirði. Til þess að
mögulegt sé að nota niðurstöðurnar til viðmiðunar verða forsendur að vera nokkuð skýrar og
verður hér á eftir reynt að gera grein fyrir þeim í meginatriðum.
Rafgirðing — Haukadalsheiði
Vinnumælingar voru gerðar í tvennu lagi, annars vegar girðing nr. 1 þar sem gerð var mjög
nákvæm mæling á einstökum verkþáttum, og hins vegar girðing nr. 2 þar sem einungis var
tekinn heildartíminn sem fór í að vinna sömu verkþætti. í báðar þessar girðingar voru notaðir
íslensku plaststaurarnir og renglurnar frá Hampiðjunni sem hlotið hafa nafnið „Girðir".
Um er að ræða fimm strengja rafgirðingar með neðsta streng jarðtengdan. Bil á milli
staura er um 20 m og tvær renglur. Girðingarnar eru að langstærstum hluta á grýttum mel,
nema um 200 m af nr. 1 sem er kargaþýfður lyngmói með rásum og jarðföllum, og um 300 m
af nr. 2 sem er blaut en slétt mýri. í báðum tilvikum unnu þrír menn verkið, í nr. 1 voru allir
vanir, en í nr. 2 var einn af þeim sem unnu nr. 1 og svo tveir 15 ára unglingar lítið vanir en þó
býsna drjúgir.
Búið var að jafna undir girðingarstæðið með jarðýtu nema áðurnefnda 200 m af lyngmóa
í nr. 1. Tíminn sem fór í að jafna með jarðýtunni er ekki inni í þessum mælingum. Matar- og
kaffitímar eru ekki taldir með, og ekki heldur tími sem fer í að koma sér á staðinn að morgni
og heim aftur að kvöldi. Þá er ekki inni í þessum mælingum tími sem fer í ýmis konar for-
vinnu, t.d. að kaupa efni og flytja á staðinn, ákveða girðingarstæðið, og gera efnis- og kostn-
aðaráætlanir. Enginn tími fer heldur í það að setja upp spennugjafa og tengja hann, enda var
verið að framlengja eldri rafgirðingar og því tengt beint í þær.
Aðstæður voru mun betri í nr. 2 en í nr. 1, t.d. færri horn, þannig að meðallengd leggja
er 416 m í nr. 2, á móti 363 m í nr. 1. Má t.d. nefna að tæplega helmingur nr. 2 var alveg bein
lína (2,0 km). Auk þess voru engar undirgirðingar í nr. 2 og mun færri sig, eða u.þ.b. 6,7
sig/km á móti 11,0 sig/km í nr. 1.
Vélavinna var ekki mæld sérstaklega, en þeir sem unnu verkið höfðu til afnota dráttarvél
með framdrifi og ámoksturstækjum, og tvær kerrur, aðra til efnisflutninga en hin var með
fimm víravindum sem festar voru á grind á kerrunni.