Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 28
27
Tilburðir til að vernda sjálfið búa í kjarna ofsóknarkenndu stöðunnar,
en það getur því miður haft þær afleiðingar að skarpur samfélagsgreinandi
eða lesandi snúi baki við heiminum sem er vondur og fólkinu í honum,
sem er bæði vont og vitlaust. Hann lætur þannig undan lönguninni sem
fylgir stöðu ofsóknarkenndar og klýfur sig frá illa viðfanginu til að varð-
veita góða viðfangið; sjálfan sig sem handhafa sannleikans, hrópandann í
eyðimörkinni. Bætandi lestur grundvallast hins vegar á sátt við það að við
þurfum á öðrum að halda og hefur því þann kost að hneigjast til að hlúa að
tengslunum við þá. Sá sem beitir bætandi nálgun viðurkennir líka að við-
föngin sem hann þarfnast eru ófullkomin og nálgast þau reiðubúinn til að
bæta það sem er þegar til staðar. Í stöðu geðdeyfðarinnar játum við okkur
sigruð – heimurinn er ekki það sem við vonuðumst eftir – en sá skilningur
gerir okkur kleift að nálgast hann aftur og með öðrum hætti.
Bætandi lestur einkennist af tregðu til að ætla öðrum annarlegar hvatir
eða hefja sig yfir aðra; viðföngin eru ófullkomnari en líka flóknari, heim-
urinn er gallaður án þess þó að vera kolómögulegur. Bætandi nálgun gerir
kröfu um örlæti, en að sama skapi er ekki ólíklegt að hún sé í flestum til-
fellum nákvæmari, þrátt fyrir að hún leggi minni áherslu á að hafa rétt
fyrir sér en nálgun ofsóknarkenndarinnar. Til að skýra betur hvað það er
sem bætandi nálgun bætir við, má skoða greiningu á áhrifum samfélags-
gagnrýni á tímum nýfrjálshyggjunnar í nýlegri bók Shannon Winnubst,
Alltof svöl.55 Þar bendir Winnubst á þá hættu að gagnrýnin veki sterk til-
finningaleg viðbrögð á borð við „reiði, vandlætingu og stundum fremur
ógeðfellda sjálfumgleði“ í stað umhugsunar.56 Það sem fylgi svo yfirleitt
í kjölfarið er þó verra: eftir að upplýstur lesandi samfélagsgagnrýninn-
ar hefur bent á sökudólgana, sýnt fram á siðferðislega yfirburði sína og
þannig létt af sér ábyrgð á vandanum, „steypir hann sér í leik og störf af
auknum krafti“, eins og ekkert hafi í skorist.57
Þótt Winnubst dragi ýmislegt fram í greiningu sinni sem lesanda finnst
kunnuglegt, þá má sjá glitta í önnur, örlátari sjónarhorn á hegðunina sem
hún lýsir.58 Til dæmis væri hægt að streitast á móti þeirri freistingu að
afskrifa tilfinningahitann sem nær tökum á ofurmeðvituðum samfélags-
55 Shannon Winnubst, Way Too Cool. Selling Out Race and Ethics, New York: Columbia
University Press, 2015.
56 Shannon Winnubst, Way Too Cool, bls. 15.
57 Shannon Winnubst, Way Too Cool, bls. 50.
58 Það vill svo skemmtilega til að í greiningu Winnubst má sjá hana beita ofsóknar-
kenndri nálgun á ofsóknarkennda leshætti nútímans.
‚AÐ KJÓSA AÐ SLEPPA ÞVÍ‘