Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Page 48
47
spurningar sem snúa að fólki í öðrum heimshlutum og líklegast er það ekki
leiðin til þess að fá atkvæði kjósenda.35
Viðamikil fjölþjóðleg rannsókn – leidd af sálfræðingnum Paul G. Bain
og m.a. unnin af íslenskum vísindamönnum – sýndi fram á að bæði þeir ein-
staklingar sem eru fullvissir um raunveruleika loftslagsbreytinga og einnig
þeir sem efast um fyrirbærið, eru mun líklegri til þess að vilja bregðast við
loftslagsbreytingum ef viðbrögðin fela í sér að annars konar samfélagsleg-
ur ávinningur náist samtímis.36 Með öðrum orðum: að einfaldlega sporna
við loftslagsbreytingum er ekki nægileg hvatning. Bandarísku stjórnmála-
mennirnir virðast meðvitaðir um þetta. Á meðan McCain stillir viðbrögð-
um við loftslagsbreytingum upp sem þjóðaröryggismáli þar sem hagsmun-
ir bandarískra neytenda verði varðir, nefnir Obama að viðbrögðin muni
auka störf í landinu. Skv. fyrrnefndri rannsókn Bains og annarra þykir
þessi aðferð auka líkur þess að fá fólk til þess að vilja takast á við loftslags-
breytingar en ekki verður horft fram hjá því að með slíkri framsetningu er
að vissu leyti gengist við dempaðri sýn almennings á vandann.
Annar frásagnarþráður sem styður við lausnarfrásögnina á sviði stjórn-
mála snýr að lausnunum sjálfum. Tæknilausnir, í formi endurnýjanlegra
orkugjafa og ýmissa tækninýjunga, eru einu áþreifanlegu birtingarmyndir
lausnar í myndskeiðum McCains og Obamas. Eins og áður sagði er ekk-
ert beinlínis sagt um lausnirnar sem varða betri leið McCains í samnefndri
kosningaauglýsingu. Hins vegar má túlka mynd af vindmyllu undir titli
auglýsingarinnar (sjá mynd 2) sem skírskotun til endurnýjanlegra orku-
gjafa. Í „Augum beint að ógninni sem stafar af loftslagsbreytingum“ talar
Obama um þjóðaráætlun (e. national plan) til að draga úr losun kolefnis út
í andrúmsloftið og þær aðgerðir sem hann nefnir í því samhengi eru þróun
nýs eldsneytis fyrir farartæki, hönnun raforkugjafa og heildræn vinna að
því að renna stoðum undir hreint orkukerfi (e. clean energy economy). Þrátt
fyrir að Obama segi réttilega að „ekkert eitt skref geti látið áhrif loftslags-
35 Um hættuna sem flokksfélagar Kolbrúnar Halldórsdóttur (þáverandi umhverf-
isráðherra) í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og kjósendur flokksins töldu
stafa af því að hún talaði opinberlega gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu stuttu fyrir
kosningar má lesa í grein Guðna Elíssonar, „Vekjum ekki sofandi dreka: Lofts-
lagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu“, Tímarit Máls og
menningar 4/2011, bls. 10–25.
36 Paul G. Bain og aðrir, „Co-benefits of Addressing Climate Change Can Motivate
Action Around the World“, Nature Climate Change 6, 2016, bls. 154–157.
„Ýttu á hnappinn • Bjargaðu hnettinum“