Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 143
142
Innan sagnaheims Setons eru dýr sett fram með hófstilltri manngerv-
ingu, ásamt sterkri nærveru mennskrar söguraddar sem minnir lesendur
á hinn óumflýjanlega mennska sögumann sem stendur á bak við dýrin.
En jafnvel í sögum þar sem söguröddin er greinilega mennsk, svo sem í
sögunni af úlfinum Lóbó, er hið dýrslega ástand ráðandi og í raun kjarni
sögunnar. Sögurödd Setons leggur áherslu á innra líf aðalpersónanna án
þess að manngera þær um of og jafnframt án þess að missa tengslin við
hið óhjákvæmilega mannlega sjónarhorn. Gott dæmi um þessa hófstilltu
manngervingu (og hófstilltu mannmiðju) má finna í sögunni um kan-
ínuna Raggylug, þar sem Seton segist hafa frjálslega þýtt „kanínumál yfir
á ensku“ og „ekki ritað neitt sem [kanínurnar] sögðu ekki sjálfar“ (skáletrun
í texta).20 Seton meinar þetta að sjálfsögðu ekki bókstaflega, ummælin
vitna um aðferð til að túlka athuganir á hegðun dýranna í sögu sem verður
aðgengileg og áhugaverð fyrir mannfólk. Þetta merkir ekki að lestur sög-
unnar sé færður alfarið yfir í mennska skilmála – það væri ofureinföldun
á þeim flækjum sem eru innbyggðar í þetta tvöfalda sjónarhorn. Seton
játar þetta í upphafslínum sögunnar, þar sem hann segir að „sannarlega
búi kanínur ekki yfir tungumáli eins og við skiljum það, en þær eiga sínar
leiðir til að tjá hugmyndir í gegnum hljóðkerfi, lyktir, veiðihára-snertingu,
hreyfingu, og dæmi sem samsvara tilgangi tungumálsins“.21 Þrátt fyrir
fjölmörg ólíkindi, þá deila tungumál manna og kanína, þróunarfræðilega
séð, merkingarbærri tjáningu á ýmsum tengdum fyrirbærum, einkum hvað
varðar tilfinningar sem tengjast vellíðan, ótta og þjáningu. Það er innan
þessa millibilssvæðis, þar sem menn og dýr tengjast í gegnum líkamlegar
upplifanir, sem sögur Setons eiga sér stað.
Þegar Seton lýsir forvígiskanínunni Raggylug sem „umbúinni í rúm-
inu“22 eða öskrandi „mamma“ í „dauðans skelfingu þegar skrímslið skaust
í átt til hennar“,23 þá er hann ekki einfaldlega að umbreyta dýrinu sínu í
pínulítinn mann, heldur að skapa sameiginlegt rými á milli mennskra og
dýrslegra sjónarhorna sem er hvorki hægt að afgreiða sem hreinræktaða
manngervingu né heldur sem hreinræktað „raunsæi“. Raggylug er kannski
ekki bókstaflega kúrandi uppi í rúmi, en það gæti farið vel um hann í öryggi
kanínuholunnar og hann þarf ekki að hafa bókstaflega öskrað „mamma“ á
kanínumáli. Lítil kanína getur gefið frá sér vein frammi fyrir óþekktri
20 Ernest Thompson Seton, Wild Animals I Have Known, bls. 72.
21 Ernest Thompson Seton, Wild Animals I Have Known, bls. 71–72.
22 Ernest Thompson Seton, Wild Animals I Have Known, bls. 72.
23 Ernest Thompson Seton, Wild Animals I Have Known, bls. 74.
GUNNAR THEODÓR EGGERTSSON