Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 144
143
hættu sem kallar móður hennar á vettvang. Hver sá sem les sögur Setons
verður að hafa í huga þetta tvöfalda sjónarhorn sem er ávallt til staðar
innan textans: raunverulegt kanínulíf, þýtt á mennska tungu; tveir heimar
sem mætast á sameiginlegum grundvelli sem ýtir undir hugmyndina um að
menn og dýr séu einungis ólík að stigsmuni, en eigi sér annars sínar eigin,
einstöku upplifanir.
Hófstillt manngerving Setons minnir um margt á dýrafræðilegan ritun-
arstíl Bekoffs, því hún er nýtt sem meðvitað túlkunartól til að gera veröld
annarra dýra aðgengilegri mennskum lesendum. Þannig verður útskýring
Setons um að hann þýði merkingarbæra tjáningu annarra dýra „frjálslega“
yfir á ensku önnur leið til að segja það sama og Bekoff gerði meira en öld
síðar, að „með því að nýta okkur manngervingu eigum við hægara um vik
að skilja og útskýra tilfinningar og skynjun annarra dýra“.24 Þegar hóf-
stilltri manngervingu25 er beitt á þennan tiltekna hátt mætti einnig kalla
það túlkandi manngervingu: ritunarstíl sem vísar til reynsluheims dýrsins,
en túlkar hann meðvitað svo mannfólk eigi auðveldara með að samsama
sig öðrum, skyldum dýrategundum. Túlkandi manngerving felur ávallt í
sér tvöfalt sjónarhorn og er einn hornsteinn náttúruvísindaskáldskapar,
vegna þess að hver einasti rithöfundur og lesandi neyðist upp að vissu
marki ávallt til þess að túlka dýralífið yfir á skiljanlegt mál. Svona túlkanir
eiga sér stað á ólíka vegu, allt frá minimalískum dýralífslýsingum hunda-
24 Marc Bekoff, „Wild Justice and Fair Play: Cooperation, Forgiveness, and Morality
in Animals“, The Animals Reader: The Essential Classic and Contemporary Writings,
ritstjórar Linda Kalof og Amy Fitzgerald, Oxford: Berg, 2007, bls. 72–90, bls.
73.
25 Hugmyndin um hófstillta manngervingu hefur verið áberandi í dýrafræðinni síð-
ustu áratugi, sérstaklega í brautryðjendaskrifum Jane Goodalls, Marcs Bekoffs,
Frans de Waal og Jeffrey Masson, en líka í safnritunum Anthropomorphism, Anecdotes
and Animals (1997) og Thinking With Animals: New Perspectives on Anthropomorphism
(2005). Umræðan er ákveðið viðbragð við því banni sem hefur hvílt á allri „mann-
gervingu“ innan vísindalegrar orðræðu á tuttugustu öld og snýst almennt séð um
að finna milliveg á milli þess að „manngera“ um of og að „manngera“ of lítið, í ljósi
þróunarfræðilegs skyldleika á milli tegunda. Hugtakið „manngerving“ er einnig
gallað og misvísandi í ljósi darwinisma, sem gerir ráð fyrir að menn og dýr deili öll-
um eiginleikum að einhverju leyti. Hófstillt manngerving er kölluð ólíkum nöfnum
í fræðunum (s.s. „bio-centric“, „moderate“ og „critical“ anthropomorphism) og býr
enn fremur yfir siðferðislegri vídd, því viðurkenning á innra lífi og tilfinningum
annarra dýra hefur ákveðnar siðferðislegar afleiðingar innan samfélags sem hlut-
gerir dýr á ýmsa vegu. Umræðunni um hófstillta manngervingu eru gerð nánari
skil í fjórðu og fimmtu hlutum doktorsritgerðarinnar, „Fluid Realities“ og „Enter
the Animal Story“.
RAUNSÆISDÝR OG NÁTTúRUVÍSINDASKÁLDSKAPUR