Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 70
69
saman ber átjándu aldar háðsádeilu Voltaires um bjartsýnina holdi klædda.
Á okkar tímum, „öld nýfrjálshyggjunnar“, hefur bandaríska fræðikon-
an Lauren Berlant skilgreint sérstakt afbrigði af bjartsýni. „Grimmilega
bjartsýni“ (e. cruel optimism) sem henni finnst einkenna samtíma okkar á
Vesturlöndum – bjartsýni frammi fyrir augljósum vonbrigðum.82 Slíkt við-
mót sér hún birtast í endurteknum tilraunum fólks til þess að ná markmið-
um sínum óháð líkunum á því að aðgerðirnar séu til bóta. Hið grimmilega
felst þá í því að einstaklingur leggur traust sitt á aðgerð eða aðstæður í von
um ákveðna útkomu þegar lausnin sem einstaklingurinn treystir á getur
allt eins unnið gegn því að hann nái markmiði sínu – og er í raun líkleg til
þess að sögn Berlants.83 Einfalt dæmi um grimmilega bjartsýni Berlants
er þegar fólk neytir tiltekinna matvara sem markaðssettar eru fyrir fólk
sem vill léttast, t.d. jógúrtar með skertu fituinnihaldi eða gosdrykkja með
gervisætu. Það getur leitt til aukinnar neyslu sem viðheldur fitusöfnun,
öfugt við markmiðið.84 Berlant telur sig þannig hafa afhjúpað órökrétta
samsömun sem vill verða hjá fólki í markaðsmiðuðu samfélagi nútímans.
Hún talar hins vegar aldrei beint um þrána eftir heimi lausum við lofts-
lagsbreytingar en hugmyndir hennar samsvara vel því brautargengi sem
ófullnægjandi lausnir við loftslagsvandanum hafa hlotið á vettvangi stjórn-
mála, fyrirtækja og sjálfseignarstofnana. Samsömunin við lausnarfrásögnina
veitir einstaklingnum von um betri heim sjálfbærni og velmegunar, en þá er
horft fram hjá langvarandi eðli loftslagsbreytinga og flókinna óvissuþátta
varðandi afleiðingar þeirra. Einnig má gera ráð fyrir að sá sem samsamar
sig slíkum lausnum sé hvorki líklegur til þess að þrýsta á stjórnvöld um að
minnka orkuþörf þegna sinna né til að reyna að skera sína eigin orkunotk-
un niður. Hann er líklegur til þess að trúa að stjórnvaldsaðgerðir gagnvart
markaðnum, lögmál markaðarins og tækniframfarir leysi vandann án þess
að hann þurfi að breyta hegðun sinni að sjálfsdáðum. Að þessu gefnu má
skilgreina lausnarfrásögnina og samsömun með henni sem grimmilega
bjartsýni. Þannig væri sú sýnilega jákvæða tilfærsla í umræðunni um lofts-
lagsbreytingar, frá afneitun til mögulegra aðgerða, til þess gerð að við-
halda villandi framsetningu loftslagsbreytinga og auka á alvarleika vandans.
82 Lauren Berlant, Cruel Optimism, Durham og London: Duke University Press, 2011,
bls. 3.
83 Sama heimild, bls. 2.
84 Berlant fjallar sérstaklega um offitu í kaflanum „Slow Death (Obesity, Sovereignty,
Lateral Agency)“ í Cruel Optimism, Durham og London: Duke University Press,
2011, bls. 95–120, hér bls. 108–111.
„Ýttu á hnappinn • Bjargaðu hnettinum“