Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 138
137
hvernig innra líf dýra er í raun og veru vísindalega séð – en þeirri spurn-
ingu verður líklega seint svarað.4
Í Kanada, heimalandi Roberts, er hans nú aðallega minnst vegna ljóða
sinna og hann oft nefndur „faðir kanadískrar ljóðlistar“, en hann skrifaði
líka fjölmargar dýrasögur sem gerast á mörkum vísinda og skáldskapar.5 Í
„The Animal Story“ lýsir Roberts sjálfum sér og öðrum svipuðum sam-
tímahöfundum sem svo að þeir vinni með „sterkbyggðan grunn þekktra
staðreynda“ og séu „nákvæmir og samviskusamir þegar saga náttúrunnar
eigi í hlut og leggi af eljusemi til þeirra fræða“.6 Roberts skrifar undir lok
nítjándu aldar og er undir greinilegum áhrifum frá darwinisma og þróun-
arkenningunni, en það kemur skýrt fram í sérstökum áhuga hans á sálarlífi
annarra dýra og hugmyndinni um að á milli manna og dýra sé einung-
is stigsmunur, en ekki eðlismunur. Hér birtist ákveðinn snertipunktur á
milli skáldlegra skrifa dýrasagnahöfunda og vísindalegra skrifa síðari tíma
dýrafræðinga á borð við Jane Goodall og Marc Bekoff, en báðir hópar
draga markvisst fram hliðstæður með innra lífi dýra og manna, út frá sam-
anburðar-, þróunar- og líffræði. Hliðstæðurnar með sálarlífi mannfólks
og annarra tegunda er kjarni málsins þegar rætt er um tilfinningalíf ólíkra
dýra; þeim svipar saman í sömu mund og þau eru ólík. Hliðstæð sálarlíf má
skilja sem ólík stig af stigi, eins og Darwin vildi meina,7 eða sem ólík til-
brigði við sömu melódíu, svo ég umorði Merleau-Ponty,8 en meginatriðið
í skrifum höfunda á borð við Roberts var hugmyndin um að engin hrein
4 Nánari umræðu um þetta efni má finna í kaflanum „Skinwalkers“ í doktorsritgerð-
inni, en það er unnið út frá tímamótagrein Thomas Nagel, „What Is It Like To Be
A Bat?“, The Philosophical Review, 4/1974, bls. 435–450.
5 John Sandlos, „From Within Fur and Feathers: Animals in Canadian Literature“,
Topia: A Canadian Journal of Cultural Studies, 4/2000, bls. 76.
6 Charles G.D. Roberts, The Kindred of the Wild, bls. 24.
7 Í Descent of Man (1871) færði Darwin rök fyrir því að munurinn á milli manna og
dýra væri „sannarlega stigs- en ekki eðlismunur“ („certainly one of degree and not of
kind“). Charles Darwin, The Descent of Man and Selection in Relation to Sex, With Ill-
ustrations, In Two Volumes, 1, New York: D. Appleton and Company, 1871, bls. 101.
8 Í greiningu sinni á franska fyrirbærafræðingnum Merleau-Ponty vísar Kelly Oliver
í hugmyndina um að „syngja heiminn“ („singing the world“) á ólíka vegu, út frá
myndlíkingunni um ólík líf tegunda sem alls kyns tilbrigði við sameiginlega mel-
ódíu. Sá lestur felur ekki í sér stigveldisbygginguna sem finna má í orðalagi Darw-
ins, þar sem melódíu-myndlíkingin gerir ráð fyrir hliðstæðum lífum sem eru ekki
endilega betri eða verri en önnur, bara öðruvísi. Tilvísun tekin frá Oliver sem vísar
til Merleau-Ponty, Phenomenology of Perception. Þýðandi Colin Smith. New York:
Routledge, 2002, bls. 217, sbr. Kelly Oliver, Animal Lessons: How They Teach Us to
Be Human, New York: Columbia University Press, 2009, bls. 218.
RAUNSÆISDÝR OG NÁTTúRUVÍSINDASKÁLDSKAPUR