Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 158
157
íslensku höfundana á árunum 1884–1914,56 en telur ekki fjöldann allan af
atvikssögum og greinum sem komu út í Dýravininum á sama tímabili.
Einstök staða „Skjóna“ innan íslenskrar dýrasöguhefðar er hins vegar
hvorki rædd né viðurkennd í Íslenskri bókmenntasögu og er það í samræmi
við almenna bókmenntafræðilega umræðu um dýr í skáldskap, eða skort á
henni. Minnst er stuttlega á „Skjóna“ í kafla um Gest Pálsson, en einungis
sem hluta af umræðu um hvernig „sögur Gests […] snúast að öllum jafnaði
um vanmátt, útrýmingu, harmleik hins veika“ og „um stöðu lítilmagn-
ans“.57 Sagan er aðallega notuð til að draga fram samlíkingu á milli illra
örlaga hestsins og mennskrar aðalpersónu í annarri sögu, „Hans Vöggs“,
til að færa rök fyrir því að hlutskipti hans sé „litlu skárra en Skjóna í sam-
nefndri sögu, báðir tilheyra þeir heimi hinna réttlausu og útskúfuðu“.58
Bágar aðstæður Skjóna eru þannig einungis ræddar sem viðmið til að ræða
aðstæður Vöggs. Aldrei er minnst á að hesturinn sé aðalpersóna eða að
saga hans sé sú fyrsta sinnar tegundar í íslenskri bókmenntasögu, þar sem
dýrslegt sjónarmið er í forgrunni og að dregin sé raunsæisleg og sam-
úðarfull mynd af aðalhestinum af svipaðri einlægni og samkennd og af
mennskum aðalpersónum höfundarins. „Skjóni“ lagði grunninn að nýrri
tegund smásagna, sem hefur ekki hlotið þá fræðilegu athygli sem hún
á skilið, en dýrasagan er alvarleg menningarafurð sem tekur róttækt á
málefnum manna og dýra. Þetta á einnig við um þá sögu sem er líklega
frægust allra íslenskra dýrasagna og mögulega sú besta: „Heimþrá“ eftir
Þorgils gjallanda.59
Í Íslenskri bókmenntasögu er þessari mikilfenglegu sögu um meri sem er
tekin frá heimili sínu breytt í „ljúfsára táknsögu“ um „hlutskipti þess sem
hlýðir rödd hjartans, sinni sterkustu þrá, en fer villur vegar, þjáist og pínist
í „auðn og öræfum““.60 Ekkert er gert úr meginmerkingarsviði sögunnar,
sem snýst um meri sem flýr nýja heimilið sitt í leit að því gamla, út frá
óljósum hugmyndum um hvar það gæti verið og minninguna af folald-
inu sem hún var neydd til að skilja eftir. Höfundurinn byggir upp fallega
56 Björn Teitsson, „Íslenzkar dýrasögur“, bls. 11.
57 Íslensk bókmenntasaga III, ritstjórar Árni Ibsen, Gísli Sigurðsson, Matthías V.
Sæmundsson, Páll Valsson, Silja Aðalsteinsdóttir, Viðar Hreinsson og Halldór
Guðmundsson [bls. 767–882 samdar af Matthíasi V. Sæmundssyni], Reykjavík:
Mál og menning, 1996, bls. 796.
58 Íslensk bókmenntasaga III, bls. 797.
59 Hannes Pétursson segir: „[Þorgils] ritaði að margra dómi beztu dýrasögu [íslenskra
bókmennta], Heimþrá“, Bókmenntir, bls. 24.
60 Íslensk bókmenntasaga III, bls. 812.
RAUNSÆISDÝR OG NÁTTúRUVÍSINDASKÁLDSKAPUR