Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Blaðsíða 107
106
yfirgnæfir niður umferðarinnar öll hljóð. Við fljótum áfram sofandi að
feigðarósi.
„Ef fuglasöngur liggur / niðri í einn sólarhring / tapast margir milljarðar“
yrkir Alda Björk og lesandinn er ekki viss um hvort sér hafi misheyrst. Sagði
hún flugsamgöngur og vísar þar til þess að við þurfum „nýjar vörur daglega“
eins og Stuðmenn ortu um í „Sirkus Geira Smart“ eða er hún að tala um
það hvernig allt, meira að segja sjálf náttúruástin, hefur verið verðmerkt?
Landslag án fuglasöngs er vissulega lítils virði í krónum talið í samanburði
við (Bandaríkja)dali fulla af náttúrulegum og markaðsvænum kliði.
Lokasetningin í ljóði Öldu dregur ádeiluna saman. „Þeir segja að jörð-
in sé blá.“ Það býr ekki aðeins efi í yfirlýsingunni. Aðrar spurningar vakna.
Hverjir eru þessir þeir sem tala og hvað felst í hugmyndinni um bláu plán-
etuna? Bláa marmarakúlan er þekkt myndhverfing í umræðunni um lofts-
lagsbreytingar, en róttækir gagnrýnendur á borð við Naomi Klein hafa
bent á að í líkingunni felist sú hætta að maðurinn ímyndi sér jörðina smáa
og viðráðanlega, sem fyrirbæri sem auðvelt sé að stýra af ,þeim‘, vold-
ugu körlunum sem hafa komið okkur í öll þessi vandræði.9 Fullyrðingin
vekur ugg sem aldrei er ræddur beinum orðum, ekki frekar en í ljóði
Sigurbjargar.
Gerður Kristný er á svipuðum slóðum í ljóði sínu „Dómi“, en ef ljóð
Öldu snýst um hugsunarleysi neysluhyggjusamfélagsins, verður sektin fyr-
irferðarmeiri hjá Gerði. Í ljóði Gerðar geisar hamslaus veisla „fyrir innan“,
líkt og hjá Goðmundi á Glæsivöllum í ljóði Gríms Thomsen. En úti fyrir
ríkir myrkrið og olían á lampanum er uppurin. Þó heldur fjörið áfram, eins
og sést ef horft er á ljósrákina „undir hurðinni“. Þessi napurlega mynd hefur
sterkar skírskotanir í íslenskri samtímasögu. „Drengir, sjáið þið ekki veisl-
una?“ hrópaði Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins
í svari við fyrirspurn á Alþingi 17. mars 2007.10 Orð fjármálaráðherrans
eru löngu fræg að endemum og eru tákn fyrir blindu þess einstaklings sem
aðeins sér það sem hann kýs að sjá. Ekki bætir úr skák að umræðurnar áttu
sér stað á hinu táknræna ári 2007 þegar þensla góðærisins náði hámarki,
þær snerust um vátryggingarsamninga og ráðherrann talaði sjálfur um að
fólk sæi ekki tiltekinn hlut, „sennilega af því að það vill það ekki“.
9 Naomi Klein, This Changes Everything. Capitalism vs. the Climate, bls. 284–290.
10 Árni M. Mathiesen, „Svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamn-
inga“, 133. löggjafarþing – 94. fundur, 17. mars 2007: http://www.althingi.is/
altext/133/03/r17183448.sgml [sótt 12. maí 2016].
Guðni ElíSSon