Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Qupperneq 141
140
var auðvelt að muna að „tígrisdýrið var grimmt, refurinn slægur, úlfurinn
ágjarn“.14 Þetta þýðir þó ekki að forsögulegt fólk hafi hugsað um dýrin á
svo einfeldningslegan hátt – þetta var einungis aðferð til að greina á milli
dýrategunda, hjálpartæki til að þekkja og virða andstæðinga sína þegar
kom að því að lifa af í náttúrunni.
út frá þessari hugmynd reynir Roberts að útskýra hvernig og hvers
vegna dýr færðust yfir í táknfræði sem ráðandi viðmið í öllum skrifum um
dýr um aldabil:
Og eftir því sem upprísandi siðmenning breikkaði stöðugt bilið á
milli manna og dýra og menn urðu æ niðursokknari í málefni eigin
tegundar, greindu þeir ekki lengur persónuleika villtu dýranna sem
þeir höfðu eitt sinn þekkt svo vel. Í bókmenntum urðu dýrin sjálf
ekkert annað en týpur eða tákn.15
Dýrin í dæmisögunum eiga lítið skylt við hugmyndir um raunveruleg
dýr. Roberts tekur miðaldafrásagnirnar um Refinn Reynard sem dæmi er
hann færir rök að því að persónur á borð við Reynard, Isegrim, Bruin og
Greybeard „eigi lítið skylt við refinn, úlfinn, björninn og bjórinn, miðað
við það sem þolinmæði, samkennd og ljósmyndavélin kennir okkur nú á
dögum“.16 Með því að draga fram raunsæi myndavélatækninnar, ásamt
vísunum í nítjándu aldar náttúruvísindi, stillir Roberts sínum eigin sögum
upp sem andstæðum dæmisagnanna. Skoðun hans er sú að skáldleg dýr
eigi að spretta upp úr náttúrufræðilegum grunni, sem raunveruleg dýr á
sinn sérstaka dýrslega hátt, en ekki einungis sem hlutar úr táknkerfi eða
viðaukar við hið mennska ástand. Skrif hans gefa í skyn áherslu á for-
söguleg tengsl á milli tegunda sem siðmenning samtímans hefur rofið eða
truflað með of mikilli áherslu á táknfræði og allegóríu í framsetningu á
dýrslegum skyldmennum okkar.
Einum af samtímahöfundum Roberts, Ernest Thompson Seton (1860–
1946), er einnig gjarnan lýst sem brautryðjanda „raunsæislegu“ dýra-
sögunnar. Hann var áhugamaður um náttúruvísindi og jafnframt mikill
sagnaþulur. Dýrasagnasafn hans Wild Animals I Have Known (1898) var
metsölubók og segir frá raunverulegum dýrum sem höfundurinn hafði
kynnst í gegnum árin. Í inngangsorðum sínum heldur Seton því fram að
14 Charles G.D. Roberts, The Kindred of the Wild, bls. 19.
15 Charles G.D. Roberts, The Kindred of the Wild, bls. 19.
16 Charles G.D. Roberts, The Kindred of the Wild, bls. 20.
GUNNAR THEODÓR EGGERTSSON