Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2016, Síða 89
88
að endurskoða þurfi lútherskar áherslur frá grunni og hverfa frá yfirráða-
hugmyndafræði í öllum sínum birtingarmyndum: Mannmiðlægni þurfi að
víkja fyrir lífhyggju og mannúð.55
Tvennt er það sem God, Creation and Climate Change gerir mikið úr:
Annað er lúthersk guðsmynd en hitt lútherskur mannskilningur. Ef við
byrjum á guðsmyndinni þá er þeirri túlkun hafnað að Guð sé almáttugur
og yfir jarðneskt líf hafinn og bent á fjölmargar birtingarmyndir guð-
dómsins í Biblíunni því til stuðnings.56 Grundvöll lútherskrar guðsmyndar
sé umfram allt að finna í guðfræði krossins, sérstaklega í framsetningu
Lúthers, þar sem Guð birtist sem kærleiksríkur faðir sem auðsýni miskunn
í hörmungum og neyð. Lútherstrúarfólk má trúa því að Guð yfirgefi það
ekki, segir í efninu, Guð sé ætíð að finna við hlið sköpunarverksins, ekki
fyrir ofan það og utan.57
Lútherskur mannskilningur hefur löngum legið undir ámæli fyrir að
vera svartsýnn á getu mannsins til þess að vinna góð verk af heilu hjarta.
Maðurinn er syndugur, „kengboginn inn í sjálfan sig“, eins og Lúther orð-
aði það, og skortir Guðs dýrð.58 Aðeins náð Guðs getur endurleyst hann
úr fjötrum syndarinnar.59 Það kemur því ekki á óvart að þeir sem standa að
God, Creation and Climate Change beini sjónum að synd mannsins og reki
loftslagsbreytingar af mannavöldum til hennar. Afleiðingar syndugs fram-
ferðis mannsins í heiminum eru sagðar blasa við hvarvetna. Neyslu- og
auðhyggja er sögð ráða ríkjum í stað réttlætis og afleiðingar slíkra viðhorfa
komi fram í loftslagsbreytingum. Í efni LH er því haldið fram að kjarni
kristins mannskilnings felist í að manneskjan þekki stöðu sína innan sköp-
unarverksins en sá skilningur sé því miður svo gott sem glataður. Með
tilvísun í fyrri sköpunarsöguna í Fyrstu Mósebók, hafi mannkyn réttlætt
þá skoðun að það sé kóróna sköpunarverksins, sem rekja megi til rangrar
túlkunar á orðum þar sem segir. „… verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið
55 God, Creation and Climate Change, bls. 15.
56 Í tengslum við þessa umræðu er hvatt til þess að leita í visku frumbyggja og orðræðu
þeirra um lífkeðjuna eða hringrás lífsins, án þess að það sé útfært frekar.
57 God, Creation and Climate Change, bls. 19–24.
58 Talið er að heilagur Ágústínus hafi upphaflega lýst hinum synduga manni með
þessu móti (lat. incurvatus in se) en framsetning Marteins Lúthers í fyrirlestri um
Rómverjabréfið er sú sem oftar er vitnað til í lúthersku samhengi en hann bætti
við einu orði: „incurvatus in se ipsum“. Bæði Ágústínus og Lúther byggja á orðum
Páls postula í Rómverjabréfinu 7.15, 18–20.
59 Sbr. Göran Bexell og Carl-Henric Grenholm, Siðfræðin af sjónarhóli guðfræði og
heimspeki, bls. 267–273.
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR