Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Blaðsíða 14
13
skilgreina klám til forna út frá því að þar séu samfarirnar sjálfar greinilega
sýndar frekar en huldar. Til forna voru veggmyndir af samförum á alls
kyns almennum stöðum, í baðhúsum, í stofum húsa, á leirkerum, vösum og
drykkjarílátum, og það samfarir milli karla og kvenna sem og milli karla15
(en nær aldrei milli kvenna).16 Þessar myndir, ólíkt klámi nútímans, nutu
almenns samþykkis, fylltu engan sérflokk og framkölluðu litla sem enga
fordæmingu – fyrr en ný hugmyndafræði ruddi sér til rúms sem breytti
öllu þessu.
Ákallið til Grikkja
Svona er […] myndlist ykkar [Grikkja] – geitaguðinn Pan, nakt-
ar stúlkur, fullir satýrar og þrútnir limir – allt teiknað upp óhulið,
og hömluleysi þessara hluta dæmir sig sjálft. Þið skammist ykkar
ekki fyrir að horfa á teikningar af hvers kyns siðleysi í allra augsýn,
enda eru þær settar upp á almannafæri; þið standið enn fremur um
þær dyggan vörð þegar þær eru komnar upp, og helgið þessi minn-
ismerki skammarleysisins heima hjá ykkur, rétt eins og þær væru
helgimyndir guða ykkar, og teiknið þar upp til jafns kynlífsstellingar
Fílænisar og þrautir Heraklesar!17
Svo lýsti guðfræðingurinn Klemens frá Alexandríu grísk-rómverskri mynd-
list undir lok 2. aldar e. Kr. Þessi lýsing hans er nýmæli; kynferðisleg fram-
setning forna heimsins er í fyrsta sinn tekin út fyrir ramma og fordæmd sem
slík.18 Klemens birti þessa árás í verki sínu Ákalli til Grikkja (Protreptikos pros
Hellênas), varnarriti sínu fyrir hinn nýja kristna sið, og notar þar kynferðis-
lega framsetningu sem aðgreinandi afl sem skiptir heiminum niður í kristna
15 Walter Kendrick, The Secret Museum, bls. 3–17; Eva Keuls, The Reign of the Phallus,
passim.
16 Möguleg undantekning er fimmta málverkið í búningsklefa (gr. apodyterium) út-
hverfisbaðhússins (ít. Terme suburbane) í Pompeii; málverkið er illa farið en gæti
sýnt kynlíf tveggja kvenna. Sjá John R. Clarke, „Look Who’s Laughing at Sex. Men
and Women viewers in the Apodyterium of the Suburban Baths at Pompeii“, The
Roman Gaze. Vision, Power and the Body, ritstj. David Frederick, Baltimore: John
Hopkins University Press, 2002, bls. 149–181, hér bls. 166–169.
17 Clem. Alex. Protr. 4.53. Allar þýðingar í greininni eru mínar eigin.
18 Kyle Harper, From Shame to Sin. The Christian Transformation of Sexual Morality
in Late Antiquity, Cambridge, Mass. og London: Harvard University Press, 2013,
bls. 84.
ÞRJú SKREF Í ÁTT Að TiLURð KLÁMSiNS