Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Blaðsíða 35
34
hún gagnrýnir kynlífslýsingar í þekktum skáldverkum, s.s. eftir t.d. D.H.
Lawrence, Henry Miller og Norman Mailer, fyrir að vera niðurlægjandi
og skaðlegar konum. Bókmenntir af slíku tagi telur hún hafa mikilvægu
hlutverki að gegna í samfélögum sem séu gegnsýrð af hugmyndafræði
karlveldisins. Slagkraftur slíkra bókmennta geri þær að öflugum boðber-
um þess hvað felist í góðu og slæmu kynlífi.4 Carol Smart bendir á að um
og eftir 1980 hafi verið farið að fjalla um kynlíf sem eitt skaðlegasta athæfi
sem konur gætu tekið þátt í innan karlveldissamfélaga.5 Meðal þeirra sem
álitu kynlíf og allt sem því tengist varhugavert, einkum og sér í lagi klám,
má nefna Andreu Dworkin og Catharine MacKinnon sem jafnframt töldu
kynlífssviðið hreyfiafl kynferðislegs ofbeldis.6 Hér verður sjónum beint að
hugtakinu hlutgervingu (e. objectification) sem hefur verið áberandi í fem-
ínískri umræðu um kynlíf og klám enda margir þekktir fræðimenn fjallað
um það þótt í mismunandi samhengi sé. Einn þeirra er immanúel Kant
sem í siðfræði sinni fjallar um hlutgervingu persónunnar í kynlífi. Mun
þekktari fyrir túlkun sína á hlutgervingu er trúlega Karl Marx sem leit svo
á að hún væri innbyggð í vinnu verkafólksins sem skapar verðmæti samfé-
lagins. Í þriðja lagi má svo finna hlutgervingu í femínískum kenningum en
þar er hún oftast tengd við ýmsar birtingarmyndir kynjamisréttis, ekki síst
klám, vændi og kynferðislegt ofbeldi. Markmið greinarinnar er að varpa
ljósi á mismunandi blæbrigði hlutgervingar og svara spurningunni hvort
hlutgerving sé alltaf af hinu illa eða hvort megi réttlæta hana í ákveðnu
samhengi, t.d. á vettvangi kynlífs og kláms.
Að meðhöndla sem hlut það sem er ekki hlutur
Í hinu þekkta riti Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni fjallar þýski
átjándu aldar heimspekingurinn immanúel Kant um lögmál mannlegrar
breytni og setur fram eftirfarandi verklegt skylduboð: „Breyttu þannig
að þú komir aldrei fram við manneðlið, hvort sem það er í persónu þín
sjálfs eða persónu allra annarra, einungis sem tæki heldur ávallt um leið
4 Kate Millett, Sexual Politics, London: virago Press, 1977 [1970].
5 Carol Smart, Law, Crime and Sexuality. Essays in Feminism, New York: Sage Pu-
blications, 1995, bls. 180–181.
6 Lynn S. Chancer, „Feminist offensives: „Defending pornography“ and the splitting
of sex from sexism“, Stanford Law Review 3/1996, bls. 739–760; Bernadette Barton,
„Dancing on the Möbius Strip: Challenging the sex war paradigm“, Gender &
Society, 5/2002, bls. 585–602.
SÓLvEiG ANNA BÓASDÓTTiR