Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2016, Blaðsíða 16
15
vafasaman sérflokk – en ekkert nafn á þennan flokk varð til fyrr en sextán
öldum síðar. Klemens fordæmir heiðna myndlist með hefðbundnu orð-
færi fornaldar – með orðum sem gefa í skyn hömluleysi, skammarleysi og
óhóf;23 orðfærið er gamalt þótt flokkurinn sé nýr. Nýtt orð gat ekki orðið
til fyrr en eftir útrýmingu hinnar fornu framsetningarhefðar á kynlífi í
almannarými af höndum hins nýja kristna siðferðis.24 Þá fyrst sköpuðust
kringumstæður sem áttu eftir að búa til nafnið sem slíkir munir fengu.
Pompeii afhjúpuð og hulin á ný
Þetta gerðist við uppgröft fornrómversku borgarinnar Pompeii á 18.
öld. Pompeii og nágrannabærinn Herculaneum grófust undir gos-
ösku vesúvíusar árið 79 e. Kr. og varðveittist þannig svipmynd af lífi í
Rómarveldi til forna. Eins og Walter Kendrick rekur í bók sinni The Secret
Museum: Pornography in Modern Culture var orðið pornographia einna fyrst
notað í þeirri merkingu sem við þekkjum í dag yfir kynferðislega muni úr
Pompeii, sem fyrir íbúum hins forna bæjar voru hluti af hinu opinbera
rými, en voru fyrir nútímamönnum – sem höfðu alist upp við skoðun
Klemensar og arftaka hans að framsetning kynlífs væri syndsamleg – hroll-
vekjandi siðleysi sem átti heima bak við læstar dyr. Þegar leitað var eftir
skýringum á þessum óskiljanlegu munum fornaldarinnar var skjótt dregið
fram orðið pornographos: Þessir munir voru, samkvæmt kenningum fræði-
manna, meira og minna afurðir fyrrnefndra „hórumálara“, og fljótlega
var búið til safnheiti yfir munina byggt á þeirra forna nafni: pornographia.
vændi var þannig notað sem flokkunartæki; með því að skilgreina verkin
sem afurðir vændis færðust þau úr almannarými fornaldar inn í einkarými
(hóruhúsið) og urðu þannig skiljanleg nútímamönnum.
En þessi lausn entist ekki lengi, enda varð fljótt annað hvert hús í
Pompeii skilgreint sem hóruhús. Lausnin á vandamálinu var að „grafa“
hluta Pompeii aftur, ef svo má að orði komast: Öllu kynferðislegu efni
þaðan sem hægt var að flytja úr stað var safnað saman í lokað rými í
Fornminjasafninu í Napolí – það tekið úr hinu almenna rými og sett í
einkarými – og varð eins og sýnidæmi um hvað felst í nútímahugmynd-
23 Sjá Holt N. Parker, „Love’s Body Anatomized. The Ancient Erotic Handbooks
and the Rhetoric of Sexuality“, Pornography and Representation, bls. 90–111, hér bls.
98.
24 Í Rómarborg eru kynferðisleg listaverk til dæmis afar sjaldgæf jafnvel í elstu rúst-
um; þau hafa flestöll verið afmáð með tilkomu hins kristna keisaraveldis. Sjá Molly
Myerowitz, „The Domestication of Desire“, bls. 138.
ÞRJú SKREF Í ÁTT Að TiLURð KLÁMSiNS