Tímarit Máls og menningar - 01.09.2011, Side 86
F i n n u r Þ ó r Vi l h j á l m s s o n
86 TMM 2011 · 3
inn brölti hún á fætur og skók sig ákaft, hörfaði svo eins langt og hún
komst fram í stafninn, hvessti þaðan á mig gular glyrnur, þandar nasir.
Hún stappaði niður framfæti, fast og strangt – líkt og til áminningar um
einkar mikilvægt atriði, nokkuð sem öllu máli skipti. Ég þóttist skynja
hvað það var. Og ég sá að hún var góð.
Það kætti dónana mjög er ég stakk mér á sund, fullkunnugt um
prófleysi mitt í þeirri grein. Hlátrarnir þögnuðu snöggt er ég vó mig
um borð í bátinn. Lurinn gaf báðum skósveinum bendingar um að
elta mig. Undirtektir reyndust nú dræmari en áður – annar skyndilega
hugfanginn af skýjafarinu, hinn að sjá niðursokkinn í brýna naglhirðu.
Einungis með örgustu formælingum gat hann att þeim af stað. Áður en
vatnið svo mikið sem tók þeim í brjóst hljóðuðu þeir og híuðu, sneru
við með miklum blæstri og andfælum. Hrottinn gerði þá sjálfur hálf-
volga atrennu. Einnig hann varð frá að hverfa eftir fáein skref, tók að
stinga við á leið til baka. Eftir stóðu kapparnir þrír í klofsjó innan um
þarablöðkur og urðu skjótt fremur umkomulausir; byrjuðu að skjálfa og
faðma sig, blása í kaun, sjúga upp í nefið.
Það var og! Þeir lögðu ekki á djúpið. Þorðu ekki að þreyja sundið.
Örfáum föðmum í burtu var ég þeim engu að síður kirfilega utan
seilingar.
Ég var hólpinn.
Hugurinn skildi okkur að.
Mér létti. Lét þó á engu bera. Ég virti dónana ekki viðlits. Hóf í staðinn
með mestu hægð að koma mér fyrir í bátnum. Ég blístraði lagstúf og
hellti úr skónum, vatt sokkana; missti út úr mér – mest við sjálfan mig –
hvað ég gæfi fyrir manndóm þeirra sem yxi í augum annað eins lauflétt
smáræði og þetta. Eða, ef því væri að skipta: dygð mæðra þeirra.
Nú kom annað hljóð í kappana. Þeir gerðu sig framúrskarandi fróma
á svip, urðu stimamjúkir og samtalsmeðferðarlegir í allri framgöngu.
Mjálmuðu eitthvað um að þetta væri nu alt for langt gengið og alt
bara eitt misforstáelsi, heilt únöðvendigt að vera so gróv og so ulekker
og ondskapsfullr; ef du bara kommer tilbake og vi setter oss neð í rú
og freð kann vi lösa þetta hér mál á sívílisertan máta, sem voksnir og
fornúftugir menn, ikkesann?
Ég tjáði þeim að hvorki væri ég tvævetr né heldur ein grillusjúk
auðgiljuð heimasæta; yrði því seint bráðginntur af nokkru nýfundnu
fölelsi þeirra um bróðurskap og samræðupólitík. Í öllu falli er með þannig
ráðslagi fullseint í rass seilst svo sem mál hafa skipast. Á milli okkar er
hyldýpishaf, kallað karlmennska – ykkur óvinnandi. Mín megin frá er
jafnan fátt að sækja til baka og tröll taki ykkar mannjöfnuð!