Tímarit Máls og menningar - 01.09.2011, Side 94
F i n n u r Þ ó r Vi l h j á l m s s o n
94 TMM 2011 · 3
höfðu átök okkar granna gengið nærri mér að ég megnaði það ekki.
Hér varð að vinna tíma. Ég tók á því sem ég átti, tjaldaði öllu til og lét
vaða með feiknlegu málþófi: sneri út úr og á haus, blés út formsatriði,
tæknigalla, tímafresti, hamraði á umboðsvanda og valdþurrð, lögbærni,
obskúrum lagakrókum …
Ég komst ekki langt. Fulltrúinn þaggaði höstugur niður í mér.
Sossoso. Vita skaltu, eybúi, að kotung og konung skilur meira en
stafurinn einn. Muntu fá sannfráð það þó síðar verði. Í stjórnlist sinni
og ríkisrekstri eyðir hans hátign ekki púðri í múgamenn. Máttu prísa
þig sælan með þá áheyrn sem þér hefur þó veist sakir minnar meðal-
göngu.
Ég leit nú fyrst af nokkurri gjörhygli á kóngsmann sjálfan. Jæjajá.
Heldur en ekki þykja mér fljóta hér eplin. Eða hver ert þú? Og hví
hnjóðar þú mig, sjálfur landi minn, svo sem vart dylst af mæli þínum?
Kóngsmaður roðnaði og ræskti sig. Hann gaut augum til hirðarinnar,
gerði sér þvínæst lipurlega upp hreim, linaði og rúnnaði tunguna nær
hinu konunglega hrognamáli:
Aaa. Ooo, sagði hann, seimdrægur mjög og sönglinn. Víst, svoddan
séð. Hef hér annað beinið. Í bland og innímillum. Annars löngu brott-
fluttur. Á hér bara hýttu eða tvær.
Ekkert meðalfól ertu! Gengur erinda erlends kóngs í eigin landi.
Þjóðníðingur! Landeyða! Laufeyjarson! Í hvers liði ertu eiginlega, ætt-
jarðar þinnar eða kúgunarvaldsins?
Náðarsamlegast, ekki vera argur, svaraði hann og herti á ný áhersluna,
gleymdi jafnskjótt hreimnum: Lið? Land? Atarna þykir mér meylegt
kjökur, ellegar í bestan stað framtíðarmúsík, óhæfandi vorri öld. Seg
mér þá, hvort knúði sá hinn sami náungakærleikur þig til að grípa um
kverkar þess manns er þú áður áleist granna þinn? Það er mála sannast
að nóg er komið af sífelldum skærum og nágrannaerjum hér á þessu
útskeri. Tímabært jafnframt að venjulegt fólk fái notið nætursvefns fyrir
þeim sturluðu friðarspillum fáeinum sem liðist hefur of lengi að ríða
hér röftum. Eða hvað finnst þér um þann plagsið hérlendan að hlaða
moði og hrísi að býlum og brenna með manni og mús – halda þannig
fram málstað í minnstu þrætu? Ellegar tæla og trylla fákæna kotbændur
úr fjarlægum landshlutum til að hervæðast, etja þeim síðan saman á
víðavangi til morðs og limlestingar hver öðrum? Og til hvers? Til þess
eins að héraðsdólgar og rummungar fái í huganum talið sér til ríkis
fleiri móa og meli, útnes og nástrandir, örfoka heiðar, fáeina harðbýla
fjalldali og hjáleigur til.
Ég mótmælti kröftuglega. En hvað með tilkall vort til friðar og frelsis,