Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Blaðsíða 43
Ú r K ó m e d í u n n i
TMM 2012 · 1 43
efni, hending, líkt og saman syndi
með sínum fylgifiskum þeirrar blendu
svo hvað ég segi virðist flökt í vindi.
Ég þóttist reikna reglu þeirrar bendu
því rétt í þessum orðum finn ég gleði
magnast hratt um mína sálarlendu.
Í andrá meira glatast mínu geði
en gögn er sögum eyddu tugir alda
þá Argos skuggi furðu Neptún léði.
Þetta fann ég læst í helgreip halda
huganum er starði, opinn, vakinn,
sem sífellt meiri örvun virtist valda.
Í ljósi þessa ljóss er auðna rakin:
Að horfa burt og líta eitthvað annað?
Nei, sýnin bjarta burt ei verður hrakin.
Allt hið góða, hæstum vilja hannað,
safnast þar, og án þess allan hefur
fullkomleiki fullkomleika bannað.
Hér rýrnar frásögn mín, því minnið sefur,
meir en kornabarns er ennþá baðar
munninn þegar móðir brjóstið gefur.
Ekki vegna líkingar er laðar
ljósið hæsta fram er á ég starði,
því alltaf er það eins og var, til staðar,
heldur þess að þá ég augum barði
þá einu sýn. Mér efldist sjónarkraftur
og breytur þar mér breyttu fyrr en varði.
Í djúpi ljóssins skæra virtist skaptur
í skipting hringja þriggja, þriggja lita
kjarni bjartur, einnar víddar aftur.
Í speglun fyrstu tveggja hringa hnita
ásbrú mætir ásbrú, þriðji hringur
virtist anda loga hinna hita.