Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Blaðsíða 31
E l d a r o g e n d u r t e k n i n g a r í a l d i n g a r ð i n u m
TMM 2012 · 1 31
það viðrar vel til hreingerninga. Kústurinn snerti aldrei malbikið enda
ekki ætlaður til annars en að sópa raunveruleikanum undir teppi –
þessi mynd af Boris Johnson borgarstjóra Lundúna, nýkomnum heim
úr sumarfríinu, birtist lesendum breskra dagblaða eftir þrjá daga af
óeirðum.
Viku síðar var leikurinn í höndum forsætisráðherrans Davids
Cameron, er hann boðaði til blaðamannafundar í ungmennafélagsmið-
stöð og lét ljósmynda sig við veggjakrot. Skilaboðin eru skýr: Jaðarinn
er á valdi ráðherrans. Myndin hefur sama tilgang og myndin af borgar-
stjóranum, sömu merkingu og mynd af heimsókn presta í leikskóla eða
af forsetahjónum að snæðingi með heimilislausum. Hún myndvarpar
getu yfirvalda til að breiða arma sína utan um þegna sem verða hættu-
legir hefðinni fái þeir að leika lausum hala – getu til að ná stjórn á ný og
koma á ró, tilkynna að átökunum sé lokið og að lífið bæði geti og verði
að snúa aftur til vanans. Í henni óma hvatningarorð Georges W. Bush
tæpum mánuði eftir árásina á Tvíburaturnana: „Við getum ekki leyft
hryðjuverkamönnunum að ná fram því takmarki að hræða þjóð okkar
upp að því marki að fólk stundi ekki viðskipti, að fólk versli ekki.“13
Leikritið tók á sig fjölda mynda. Í grein sem birtist í fríblaðinu Evening
Standard hvatti borgarstjórinn íbúa Lundúna, þessarar „heimsins mestu
borgar“, til að sameinast gegn óeirðafólkinu svo óþægilegur raunveru-
leikinn muni eingöngu lifa sem „vondur draumur“ þegar Ólympíuleik-
arnir ganga í garð sumarið 2012. Líkt og sá sem segir „ég er ekki rasisti
en …“ og hefst svo handa við rasískan reiðilestur sinn, minntist borgar-
stjórinn á nauðsyn þess að rannsaka dauða Marks Duggan en sagði það
jafnframt til marks um afbökun að eigna lögreglunni orsakir óeirðanna.
Lögreglan hafi ekki tekið þátt í óeirðum, ekki rænt eða kveikt af
handahófi í eignum, og ekki ráðist á saklausa vegfarendur.14
Þetta skólabókadæmi um orwellska nýlensku – þar sem stríð er
friður, frelsi er þrældómur og fáfræði er styrkur – felur ekki einungis
í sér þá þversögn að kveikjan að óeirðunum var einmitt árás lög-
reglunnar á saklausan vegfaranda, heldur sýnir það einnig og enn
frekar örvæntingarfullan varnarskjöld um lögregluvaldið sjálft. Tæpum
sólarhring áður hafði rithöfundurinn Nina Power bent á að frá og með
árinu 1998 hafa í það minnsta 333 látist í vörslu bresku lögreglunnar
en ekki einn lögreglumaður verið látinn sæta ábyrgð.15 Niðurstöður
nýlegra rannsókna á fátækt og heimilisleysi í Englandi, sem sýna fram á
óhugnanlega lágan meðalaldur og háa sjálfsmorðstíðni heimilislausra16,
staðfesta svo þá söguskoðun að fátt hafi breyst síðan Orwell ferðaðist
um allslaus og utangarðs í París og London og skrásetti harðan heim