Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Blaðsíða 27
TMM 2012 · 1 27
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Eldar og endurtekningar
í aldingarðinum
Um Lundúnaóeirðirnar 2011
Gríski tónsmiðurinn Iannis Xenakis1 lýsti því eitt sinn hvernig hamskipti
hefðbundinna mótmæla höfðu áhrif á tónsmíðar hans. Taktföst marsering
og samstillt kyrjun slagorða verður smám saman eða samstundis að
kaótískum óeirðum. Hljóðfæraleikararnir sem alla jafna leika sem heild
verða að sjálfráða einstaklingum og einleikur hvers og eins þeirra, þvert
ofan í einleik allra hinna, útvarpast um borgina, vettvang óeirðanna –
þeir mynda áður óþekktan samhljóm, óútreiknanlegan massa. Um hin
taktföstu mótmæli, sem eru taktföst vegna þess að þau lúta stjórn utan-
komandi afla eða sjálfstjórn þeirra sem mótmæla, gildir hið sama og um
stöðugt samfélagsástand almennt þar sem neysla og önnur félagsleg sam-
skipti hins daglega lífs sigla truflunarlaust sín hefðbundnu mið.
Óeirðir eru uppbrot þessa stöðugleika. Þær snúast um vald og koll-
vörpun valdahlutfalla. Sjálfsprottnar og óvelkomnar snúa þær hinu
venjubundna á hvolf. Öfl sem samkvæmt samfélagssáttmálum stjórna
félagslegum hegðunarmynstrum og afrétta skekkjur, neyðast skyndilega
til að verjast árásum. Hver mínúta er til marks um að lögreglan hafi
misst tökin og eftir því sem óeirðirnar lifa lengur verður hallinn aug-
ljósari – ástandið jafnframt hættulegra hefðinni.
Mínúturnar urðu margar á meðan á óeirðunum stóð. Þær hófust í
Tottenham eftir að lögreglan skaut þar Mark Duggan nokkurn til bana
að kvöldi 6. ágúst síðasta árs, og dreifðust þaðan sem röð flóðbylgna
um Lundúnir allar, loks langt út fyrir borgarmörkin. Þarna allt í einu
raunveruleiki og það ögrandi raunveruleiki. Friðurinn rofinn. Ekki
löngu áður hafði önnur ögrun hernumið götur Lundúna – atburður
sem á yfirborðinu hefur verið staðsettur við hlið óeirðanna og þeir tveir
birtir sem öfgar úr sitthvorum enda sama samfélagsins. „Í apríl,“ sagði
breski innanríkisráðherrann Theresa May nýlega, „á meðan konunglega