Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Blaðsíða 2
2 TMM 2012 · 1
Frá ritstjóra
„Þetta er ekki penni, þetta er eldflaug“, segja hermennirnir við sögu-
mann í sögu Einars Más Guðmundssonar hér í heftinu. Eða kannski
er þetta ekki smásaga heldur frekar grein – eða ritgerð, minningabrot,
sagnaþáttur já eða jafnvel minningargrein, enda heitir ritsmíðin Minn-
ingargrein um Joe Allard. Við vitum að minnsta kosti strax í fyrstu
setningunni að hér skrifar skáldið Einar Már, og notar það bókmennta-
form sem hann hefur þróað með sér í tveimur síðustu bókunum sínum
til að segja okkur magnaða sögu um eldflaug sem var ekki penni, og átti
eftir að draga dilk á eftir sér fyrir sögumanninn þegar hann var kominn
inn á vallarsvæði hersins, kominn á barinn með Braga Ólafssyni skáldi
og kátum hermönnum, karíókí-græjurnar komnar í gang og hann
búinn að velja sér Eight days a week með Bítlunum til að syngja …
Penninn er eldflaug. Líka í leiftrandi hyllingu Hallgríms Helgasonar
á Dalalífi Guðrúnar frá Lundi, sem hann náði sér í með harmkvælum
og gat ekki lagt frá sér fyrr en að lesnum öllum þessum þúsundum
blaðsíðna. Af öðrum greinum er vert að vekja athygli á umfjöllun
Salvarar Nordal um störf stjórnlagaráðs þar sem hún var formaður
og stjórnarskrámálið sem vonandi hefur ekki tekist enn einu sinni
að svæfa. Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson skrifar líka hugvekju um
óeirðirnar í London og reynir að grafast dýpra fyrir um orsakir þeirra
en að þar hafi verið einskærir óknyttir ofalinna unglinga eins og fjöl-
miðlar létu að liggja.
Skáldskapur, sögur og ljóð eru á sínum stað og rækilega úttektir á
ýmsum bókum sem eflaust eiga eftir að vekja athygli og umtal. Ástæða
er þar til að vekja sérstaka athygli á umsögn Árna Bergmann um bækur
sem snerta tvo vini hans, þá Þórð Sigtryggsson og Elías Mar.
Guðmundur Andri Thorsson