Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Blaðsíða 52
H a l l g r í m u r H e l g a s o n
52 TMM 2012 · 1
Þetta er flott. Eins og skilrúm milli lifandi og dauðra.
Á næstu síðu er einnig að finna snjalla línu.
Bls. 531:
„Það fer eins og ég hef sagt að hún lognast útaf á eftir barninu, áður en langt um
líður,“ sagði Sigga gamla einn morguninn við Finn úti á hlaðinu. Finnur gamli
athugaði bæjarbustina vandlega áður en hann svaraði.
„Ónei, Sigríður sæl. Það verður einhver á undan henni í garðinn, sem hraustari
sýnist vera.“
Hér er enginn venjulegur afþreyingarhöfundur á ferð. Gamli maðurinn
þaulskoðar bæjarburstina áður en hann svarar. Þið afsakið, en þetta
minnir helst á Laxness. En Guðrún bætir um betur. Með þessu trixi, að
láta Finn gamla horfa svona vel á bæjarburstina áður en hann svarar, fær
hún okkur til að trúa orðum hans. En tekur okkur svo í bólinu tuttugu
síðum síðar með því að láta húsfreyjuna deyja, þvert á orð þess gamla.
Andláti Lísibetar er síðan lýst á mjög athyglisverðan hátt. Jón sonur
hennar er inni hjá henni. Bls. 555:
„Andardrátturinn var þungur og hryglukenndur. Hann flýtti sér að opna húsið.
Baðstofan var mannlaus en framan úr kokkhúsinu heyrðist glaðvær hlátur
stúlknanna. Þær höfðu verið að fá sér aukakaffi [ókei, smá kaffi hér] og ætluðu
að láta Siggu lesa í bollana.“
Jón biður síðan Borghildi að fylgja sér inn til móður sinnar. Stuttu síðar
kemur hún aftur fram:
„Borghildur fór fram í kokkhúsið og sagði, hvað var orðið skipt um inni. Boll-
arnir voru settir harkalega niður, eins og þeir hefðu átt sök á því, að látið var
svona kjánalega á þessari alvörustundu.“
Maður heyrir í þeim hljóðin, þegar postulín skellur á tré, og senan lifnar
við um leið og dauðinn er staðfestur. Svona sérstæða og nákvæma mynd
málar ekki miðlungshöfundur.
Eftirminnileg er einnig lýsingin á viðhaldinu Línu þegar Þóra kemur
að henni og Jóni í sínu eigin eldhúsi um miðja nótt. Stúlkan kýs að
hreyfa sig ekki en heldur þétt um hálsinn á hreppstjóranum.
Bls. 999:
„Lína sat alltaf í sömu stellingunum, með lokuð augun, og líktist helzt sofandi
barni.“