Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Blaðsíða 50
H a l l g r í m u r H e l g a s o n
50 TMM 2012 · 1
Um hvað er þessi bók? Að miklu leyti fjallar hún um sálrænt ofbeldi,
ævilangt einelti, ofríki karlmannsins og þjáningu kvenna. Framan af
er meginsagan um Þóru í Hvammi og baráttu hennar við æskuástina.
Jón Jakobsson er aðalgæinn í dalnum, sjálfur Dalaprinsinn, fallegastur
og fjörugastur, situr best hest og leikur á harmóníku, eftirherma góð og
dansherra með afbrigðum, sem og erfingi stærstu og bestu jarðarinnar.
Herra Fullkominn. Og þar af leiðandi elskaður af öllum stúlkum, Þóru
þar á meðal. Og líkt og slíkum mönnum er gjarnt kann hann manna
best þá kúnst að halda þeim öllum heitum — hleypur á milli hellna eins
og kokkur í stóru eldhúsi og kyndir undir hverjum potti — og ekki bara
fram að brúðkaupi heldur að því loknu líka.
Þetta kann að hljóma klisjulega en lýsingin á Jóni er þó sálfræðilega
djúp og hárnákvæm. Ofbeldi hans er alltaf á ljúfu nótunum og vinalega
fram borið. En í raun er hann illa dekraður egóisti sem fer sínu fram
án tillits til annarra, ótruflaður af því sem samviska nefnist. Við getum
sagt að hann sé siðleysingi. Drykkfelldur partýhrútur sem lætur sér
ekki nægja að fá fallegustu stúlkuna á svæðinu heldur vill líka fá að geta
börn með öllum hinum og líður engri þeirra að eiga annan mann. Hann
gengur jafnvel svo langt að koma viðhaldinu sínu fyrir sem vinnukonu
hjá Þóru sem þjáist í Hvammi og læðist svo um nætur inn í eldhúsið
á bæ hennar til að fá gagn af stúlkunni. Hann vill ríkja yfir öllu og að
allt lúti sér. Í raun má segja að hann sé hinn klassíski íslenski forkólfur,
með Blackberry-símann í vöðlunum og laxeldiskerið aftan á pallbílnum.
(Það mætti halda að þessi karakter hefði verið styrktur af Byggða-
stofnun.) Og Þóra er að eilífu föst í landhelgi þessa manns. Hún kemst
aldrei undan ást sinni á þessum oflátungi, sem henni er þó fullvel ljóst
að er meinvaldur lífs hennar. Hún reynir þó hvað hún getur að útiloka
hann úr lífi sínu, að giftast öðrum manni, eignast börn og eiga sér líf, en
verður sífellt að lúta í lægra haldi fyrir þessum veikleika sínum. Fyrstu
bindi Dalalífs gætu í raun heitið Kvalalíf.
Þóra sjálf virðist meðvituð um þetta og á erfitt með að horfa á
kynsystur sínar falla í sömu gryfju. Þegar hún fréttir að mágkonan
María ætli að lúffa fyrir lífinu og ekki fylgja ástinni sinni til Ameríku
heldur taka að sér gamlan ekkjumann úti á Strönd, gerir hún sér tveggja
daga ferð til hennar til að reyna að telja henni hughvarf.
Og þá má spyrja: Var Guðrún frá Lundi með þessu að gagnrýna
feðraveldið? Var hún að fjalla beint um undirokun kvenna? Var hún
femínískur höfundur? Ja, hún skrifaði allavega sársaukasögu konu sem
var að eilífu föst í Hrútadal.
Í raun má segja að þessi hluti Dalalífs sé Sjálfstætt fólk frá sjónarhorni