Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Síða 51
TMM 2012 · 2 51
Einar Kárason
Hrímþursar nema land
(Hugleiðing um fyrsta hluta Egilssögu)
1.
Fyrsti hluti Egilssögu Skallagrímssonar segir frá Kveldúlfi, sonum hans og
samskiptum þeirra við nýjan einvaldskonung í Noregi, sem enda með því að
ættin yfirgefur heimahagana og leggur á hafið til að nema Ísland.
Egilssaga var samin á Íslandi á fyrri hluta 13. aldar. Sjálfum þykir mér aug
ljóst, eins og mörgum öðrum, að höfundur hennar sé Snorri Sturluson, en
það skiptir reyndar ekki máli hér. Hitt er hafið yfir vafa að hún var skrifuð
af miklum ritsnillingi með fágæt tök á viðamiklu efni og afburðahæfileika
til mannlýsinga, höfundi sem gat leikið á merkilegan tónstiga tilfinninga,
frá djúpum harmi til napurrar gamansemi. Hún er ein af elstu Íslendinga
sögunum; kannski sú alfyrsta eins og Jónas Kristjánsson hefur stungið uppá,
í það minnsta hefur fátt varðveist af handritum með sambærilegri sagnalist
eldri en elstu brot af Egilssögu. Það er því áhugavert að reyna að gera sér í
hugarlund hverju höfundurinn var að reyna að koma á framfæri með sínu
verki. Þetta er saga um fyrstu kynslóð Íslendinga, greinir frá því hvers vegna
þeir fóru hingað og hverslags menn það voru.
Frásögnin í þessum fyrsta hluta hefur allar eigindir klassískrar goðsögu
um landnám og nýja þjóð, og gaman væri jafnvel að ímynda sér að hún væri
það eina sem við Íslendingar ættum til um uppruna okkar; bara þessa einu
sögu sem á sinn hátt er jafn táknum hlaðin og sagan um bræðurna sem
stofnuðu Rómarborg. Og þessi landnámsmýta er líka magnaðri en sagan um
Ingólf sem nam Reykjavík, sem því nemur að þar sem eru öndvegissúlur,
dauðir trédrumbar, í sögunni um Ingólf, höfum við í Egilssögu lík einfarans,
mikilmennisins og varúlfsins Kveldúlfs.
2.
Svona er atburðarás fyrsta hlutans í örstuttu máli: Í forgrunni eru Kveldúlfur
og synir hans tveir sem eru algerar andstæður; Þórólfur er líkur sínu móður
fólki, fríður og sjarmerandi, sannur riddari og mjög í anda nýrra tíma með
konungshirð og göfugmennsku. Bróðir hans Skallagrímur er ófríður, stirfinn