Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Page 77
Ú r D a g b ó k u m M a t t h í a s a r
TMM 2012 · 2 77
í sjúkdómagreiningum og þótt hann hafi reynt að malda eitthvað í móinn
í byrjun gafst hann upp á því og aumingjaskapur minn og heilsuleysi urðu
honum áreiðanlega meira umhugsunarefni en elli hans.
Annars erum við báðir ágætlega á okkur komnir, bætti ég við og hann
neitaði því ekki.
Þá sagði ég, Nú skulum við fara að eldast afturábak eins og Þórbergur sagði.
Ha, Þórbergur, sagði þá Hannes, hann sagði svo margt – og átti þá við að
Þórbergur hefði sagt svo marga vitleysu að ekki væri ástæða til að tíunda það.
Eigum við þá ekki að hittast einhvern tíma í kaffi, sagði ég.
Ja, sagði Hannes, ég fer nú eiginlega aldrei í bæinn, nema þá helzt í jarðar
farir en það getur þá verið að einhver útförin verði tilefni til þess!
Svo kvöddumst við þarna við kirkjuna. Þá var hann kominn með konuna
upp á arminn. Hún var mjög fín með barðastóran hatt. Ég horfði á eftir þeim
og hugsaði með mér hvað það hefði verið gott hljóð í Hannesi og gaman að
hitta hann.
Þegar við komum í Hótel Sögu sagði ég þeim Sveini og Jóhannesi Nordal
frá þessu.
Þá sagði Jóhannes, Hvenær fór þetta samtal ykkar fram?
Eftir jarðarförina, sagði ég.
Núna rétt áðan? spurði Jóhannes.
Já, sagði ég.
Það hlaut að vera sagði Jóhannes og brosti því ég hitti Hannes og það lá svo
ljómandi vel á honum. Hann hafði gjörsamlega kastað ellibelgnum – eða þú
hefur kastað honum fyrir hann!¨
Þannig fór nú þessi fallega útför Andrésar Björnssonar fram, með höfð
inglegri reisn eins og efni stóðu til.
Og það var við hæfi að Hannes Pétursson skyldi loksins koma í leitirnar.
9. febrúar, föstudagur
Bauð klíkunni í kvöldverð niður á Morgunblað. Það var góð stund, að venju.
Indriði G. leit betur út en oft áður. Ég sé hann er sem betur fer hættur við
að berja nestið. Hann sagði að tvær aldir Íslandssögunnar væru einskonar
eftirmynd hvor af annarri, það væri þjóðveldistíminn eða öllu fremur
Sturlungaöldin og 20. öldin. Flokkadrættir hefðu verið með svipuðum hætti,
þó án manndrápa á hinni síðari. Hann hefur leitað að framsóknarmann
inum á sturlungaöld og fundið Ingjald á Keldum: Allir voru þar óvinir Njáls
– nema Ingjaldur á Keldum, eins og segir í húsganginum. Ég benti honum
á að Ingjaldur á Keldum hefði ekki verið uppi á 13. öld, heldur hefði hann
verið samtímamaður Gunnars og Njáls og annarra sögualdarmanna. Indriði
sagði að það væri að vísu rétt, en hann væri afkvæmi Sturlungaaldar. Höf
undur hefði fundið hann í samtímanum. Það má vera, þannig eru skáldverk
oft skrifuð. Ingjaldur vissi um aðförina að Njáli en gat ekki sagt honum frá
henni án þess að svíkja vini sína. En hann gaf honum hættuna í skyn með því