Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Qupperneq 80
M a t t h í a s J o h a n n e s s e n
80 TMM 2012 · 2
Það skiptir svo sem ekki máli fyrst maður getur hlaupið frá því þarna í
draumnum og látið sem ekkert sé. En ekkert tilefni var til þessa draums,
svo ég viti, og bezt gæti ég trúað að ljónin og tígrisdýrin væru einfaldlega
rándýrin í minni eigin sál; rándýr undirvitundarinnar; rándýrin sem hver
maður þarf að glíma við og temja en tekst misjafnlega.
2. janúar, sunnudagur
Í fyrramálið skreppum við líklega austur á Selfoss og fáum okkur síðdegis
kaffi. Steingeitin ætlar að flýja afmælið sitt, það er henni líkt. Það er líka
komið nóg af afmælum. Þegar ég var drengur hélt ég yfirleitt ekki upp á
afmælið mitt. Þó man ég eftir afmælinu þegar ég var fjórtán ára, 3. janúar
1944. Þá fór ég með pabba og Gústa Mark á Blóð og sand. Hún var bönnuð
innan 14 ára, svo ég var löglegur bíógestur. Það var einn mesti áfangi æsku
minnar. Svona rómantískur harmleikur átti vel við mitt rómantíska upplag.
Samt er ég allra manna hversdagslegastur, hvernig getur þetta eiginlega farið
saman? Einkennilegt hvernig náttúran fer að því að búa til mann, allt notað
– og svo vex hann úr andstæðum sínum og verður allur í dauðanum.
Loksins þá!
3. janúar, mánudagur
Logn veðurs, bjart. Fjögurra stiga frost. Trén í garðinum eins og eilífðin,
haggast ekki. Fuglarnir flögra við himin.
Það gerist ekkert, það hefur aldrei neitt gerzt.
Stórt hvítt ský í suðri eins og heilagur andi sé að búa sig undir nýja til
skipun á nýrri öld.
Kvöldið
Skruppum uppúr hádegi austur á Selfoss. Það var hríð í Reykjavík en fagurt
og bjart veður fyrir austan. Á heimleiðinni skall hann á með hríðarkófi.
Tókum upp konu sem þurfti að komast til Reykjavíkur. Það kom í ljós að
hún hafði verið gift bróðursyni Ragnars í Smára, syni Gísla Jónssonar í
Mundakoti. Konan var kurteis, en sérkennileg. Hún sagði að móðir Ragnars
hefði aldrei farið út fyrir sýslumörkin, hún hefði heitið því ung og staðið
við það. Hún sagði einnig að Gísli, tengdafaðir sinn, hefði fengið rýrnunar
sjúkdóm. Það vissi ég reyndar. Ég sá hann einu sinni fyrir margt löngu, hann
var rýr og tálgaður, en bar sig vel. Konan sagði að Gísli hefði látið binda á sig
ljáinn. Einhverju sinni spurði kona nokkur Gísla, hvernig honum liði. Hann
talaði aldrei við hana eftir það!
Það var einkennilegt að hlusta á þessa ókunnugu konu sítalandi í bíln
um þarna í hríðinni á heiðinni. Það var eins og draumur. Og svo fór
hún út í Árbæjarhverfi, hvarf eins og landið í kófinu. Og gekk inní veru
leikann, kaldan og hryssingslegan. Minnti á manninn sem Ragnar tók upp
á Hellisheiði, sællar minningar. Hann var með hnakk. Þegar þeir komu til