Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Page 91
F r e s s k e t t i r
TMM 2012 · 2 91
„Svona, svona. Hvað segirðu bara um að við heimsækjum hann saman á
morgun? Ég get komið við hjá þér strax eftir hádegimatinn.“
***
Minningin um gamla gamnislagi fer um hugann, óskýr en áþreifanleg, eins
og fjúkandi slæða í þoku. Það var þreytandi að slást við Braga og smám
saman hætti hann að nenna því. Hafði hann að vísu undir, enda þremur
árum eldri, en Bragi neitaði alltaf að gefast upp og var svo hefnigjarn að
saklaus gamnislagur gat orðið að endalausum alvöruslag sem gat jafnvel
staðið yfir með hléum dögum saman. Hann getur alveg séð Braga fyrir sér,
útblásinn af heift, með stálrör reitt til höggs. En þessi frétt er samt hálf
óraunveruleg, hann á erfitt með að ímynda sér að Bragi sé hættulegur, þrátt
fyrir allt. Sjálfur myndi hann grípa um rörið og halda því föstu en næði
þó ekki að snúa það úr höndum bróður síns: þannig myndu þeir stimpast
langa stund, báðir með hendur á rörinu, uns Óskari tæki að leiðast þófið og
myndi semja um vopnahlé – bjóða fram afsökunarbeiðni og 500 króna seðil
eða tíu fótboltamyndir úr enska boltanum, jafnvel af George Best eða Bobby
Charlton …
***
Hann dauðlangar í bjór. En Sigrún kemur heim á hverri stundu og það er
ekki í boði að sitja inni í stofu og sötra bjór klukkan tvö á laugardegi. Hann
getur beðið þar til í kvöld, þá fær hún sér kannski einn með honum fyrir
framan sjónvarpið og svo getur hann bætt á sig eftir að hún er sofnuð.
Hann hlammar sér í sófann við hliðina á kettinum sem liggur hrjótandi
á gamla púðanum sínum. Þetta er gulbröndótt friðsemdardýr sem rápar inn
og út um kattalúguna á útidyrahurðinni og fer aldrei langt frá húsinu. Hann
er geldur og því aldrei breima og hann forðast slagsmál við aðra ketti; stór
bjalla hangir neðan úr hálsólinni hans og kemur í veg fyrir að hann nái að
veiða fugla. Þessi köttur er svo sannarlega ólíkur Gretti, gamla kettinum
hans Braga, sem lagðist reglulega í flakk og lenti í alls konar slagsmálum.
Þegar hann skreiddist vígmóður heim tók Bragi á móti honum og var
óþreytandi að hjúkra honum, strauk þá yfir skítugan og blóðugan feldinn
með rökum þvottapoka. Grettir vældi ámátlega undan strokunum en hann
reyndi ekki að losa sig úr höndum eiganda síns. Bragi bar smyrsl á verstu
sárin úr kringlóttum bauki sem Óskar hafði fyrst augum litið eftir að hann
hruflaði einu sinni illilega á sér hnéð á frostharðri skólalóðinni; mamma
náði í hann og fór með hann heim úr skólanum og bar varlega þetta glæra
og hlaupkennda mauk á sárið. Eftir hjúkrunina gaf Bragi kettinum harðfisk
og rjóma eða annað ámóta góðgæti ef hann fann það í eldhúsinu, stundum