Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Side 5
G e t u r þ ú s t a ð i ð í v e g i f y r i r f r a m f ö r u m ?
TMM 2013 · 1 5
trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna
landsins – jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.
Tuggur hinna kviksettu
„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja
gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í
Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði
íbúum Auschwitz fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin
innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi – samstarfsverkefni Stein-
unnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar – sem stóð yfir í safninu
frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.
Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp
í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni
frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru
tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa
upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á
að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar
ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags:
Betra er illt yfirvald en ekkert. Anarkí er æðsta syndin. Hinir hæfustu lifa af.
Vinnan göfgar manninn. Lengi tekur sjórinn við. Ég elska þig. Stétt með stétt. Öll
í sama báti. Allir menn eru fæddir jafnir. Allir eru jafnir fyrir lögum. Með lögum
skal land byggja.
Einnig tyggja þeir orð og hugtök sem álitin eru grunngildi og leiðarstef þessa
sama samfélags: tjáningarfrelsi, réttindi, lög og regla, svo nokkur séu nefnd.
Loks halda þeir á milli sín nokkrum pörum tvíhyggjunnar sem stöðugt leitast
við að einfalda heiminn og tilveru mannsins – skipta flækjum og átökum
hans við sjálfan sig og aðra upp í andstæðar fylkingar góðs og ills, líkama og
sálar, hins rétta og hins ranga, orsaka og afleiðinga. Annaðhvort eða.
Að baki hinna kviksettu flæða myndir sem sýna, í bland við slurk af
svörtum húmor, dökka mynd af vestrænni siðmenningu. Margbreytilegar
birtingarmyndir kapítalisma, stríðsreksturs, nýlendustefnu, iðnvæðingar,
þjóðerniskenndar, trúarbragða, tvíhyggju og línulegrar hugsunar vestrænnar
menningar, kallast á við frasana og afhjúpa merkingu þeirra og hlut-
verk. Saman varpa myndirnar, frasarnir og kviksettir líkamarnir þannig
upp mynd af ófrjálsri og (bókstaflega) kviksettri stöðu einstaklingsins í
samfélaginu – „varpa ljósi á persónulega upplifun á lífi undir kapítalisma“,
svo orð Jóns Proppé séu fengin að láni.4
Í grafhvelfingu í anddyri safnsins héngu silkiborðarnir úr myndinni,
nú vafðir á jarðarfararkrans sem gnæfði yfir lítilli vöggulaga líkkistu sem
út úr stóð snuð. Upp úr svörtum sandi sem kistan stóð á gægðust höfuð
tveggja barna sem á milli munna sinna héldu uppi enn einum frasanum: