Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 20
20 TMM 2013 · 1
Þórarinn Leifsson
Síðustu dagar Gúmmí-Tarzans
Örlög danska barnabókahöfundarins
Ole Lund Kirkegaard
Ole Lund Kirkegaard var einn af merkustu barnabókahöfundum Dana.
Gagnrýnendur hlóðu hann lofi frá fyrsta degi og bækur hans seldust í millj-
ónum eintaka. Þær hafa verið þýddar á u.þ.b. þrjátíu tungumál en meðal
Íslendinga er Gúmmí-Tarzan langþekktust. Höfundarverkið varð ekki stórt,
sjö stuttar skáldsögur og slatti af handritum fyrir barnasjónvarp, en allt varð
það til á örfáum árum, eða frá því að Ole var uppgötvaður í smásagnasam-
keppni 1966 og þar til hann lést á hörmulegan hátt tólf árum síðar.
Örlög Ole Lund Kirkegaard voru að mörgu leyti tragíkómísk. Barnabóka-
höfundur sem fór í hundana á örfáum árum, líkt og rokkstjarna, á meðan
fjölmiðlar héldu dauðahaldi í ímyndina um grandvara barnakennarann með
Sherlock Holmes-pípuna.
Eftirá urðu margir til að spyrja sig hvernig maður sem elskaði lífið jafn
innilega og Ole Lund Kirkegaard gat misst tökin á því jafn gjörsamlega og
raun bar vitni.
Ég ólst upp í Kaupmannahöfn á þeim árum þegar stjarna Ole Lund Kirkegaard
skein hvað skærast. Þetta var tími Kristjaníu, Glistrups og Gasólín. Kynin
runnu saman í eitt og engin leið að þekkja stelpur og stráka í sundur í skól-
anum. Þetta var einnig tími róttækni og pólitískrar rétthugsunar með öllum
þeim kostum og göllum sem því fylgdu. Ég var einlægur aðdáandi Ole Lund
í barnaskóla en það er fleira sem tengdi okkur saman. Við áttum til dæmis
sama afmælisdag.
Ole fæddist 29. júlí 1940. Hann ólst upp í Skanderborg á Jótlandi á venjulegu
borgaralegu heimili. Mamman vann heima og pabbinn rak litla tann-
læknastofu sem úreltist smám saman því hann var nokkuð drykkfelldur.
Þess utan var mikil áfengismenning í fjölskyldunni, hvert tækifæri notað til
að skála og vín ávallt á boðstólum fyrir gesti og gangandi.
Þrátt fyrir skugga áfengisneyslu átti Ole yndislega æsku þar sem hann,
bróðir hans og aðrir félagar léku lausum hala í sveitasælunni. Æskuárin voru
augljós uppspretta sagna um baldna drengi sem skutu upp kollinum í bókum
hans seinna meir.