Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Síða 27
S í ð u s t u d a g a r G ú m m í -Ta r z a n s
TMM 2013 · 1 27
höfða bæði til hinna fullorðnu kaupenda og neytendanna: barnanna. Fyrstu
fimm bækur hans líktust seríu þegar þær stóðu saman í hillunni og aðeins
mynd á kápu og litir voru mismunandi. Þessi mikla áhersla á notendavæna
hönnun fór í taugarnar á honum.
Af þessum ástæðum lét Ole talsvert að sér kveða þegar kom að hönnun
og umbroti Gúmmí-Tarzans (1975). Hann vildi brjótast út úr skapalóninu.
Bókin var í minna broti en hinar, með heildarlit sem náði yfir alla kápuna.
Gúmmí-Tarzan var listilega þétt saga þar sem flóknar senur voru dregnar
upp með örfáum orðum. Nostur Ole við þéttingu texta náði nýjum hæðum,
frásagnaraðferðin nálgaðist myndasöguformið með talblöðrum, örvum og
fjölbreyttri týpógrafíu. Ritstjórn Gyldendal rambaði á barmi taugaáfalls
þegar höfundurinn heimtaði að öllum löngum orðum yrði skipt upp með
svífandi punkti. Slíkt hafði ekki sést áður og þótti fulltilraunakennt. En
Ole gaf sig ekki. Ekki heldur þegar þýski útgefandinn vildi breyta end-
inum sem honum þótti allt of sorglegur. Bókin endar á því að söguhetjan
er komin á sama stað og í upphafi bókar, aftur orðin að vesalingi eftir að
hafa verið sterkari en Tarzan. Þetta þótti fullþungur boðskapur fyrir unga
þýska lesendur eftirstríðsáranna. Þessu svaraði Ole með þeim orðum að
þýska útgáfan yrði þá bara að frestast um sinn því það kæmi ekki til greina
að skrifa hamingjuríkan endi. Það kæmi engin góð norn og hjálpaði til ef
maður kynni ekki að lesa. Það yrði alltaf hörkupúl að læra það en ef fólk
hjálpaðist að þá hefðist það kannski – en ekki undireins. Ole leyfði sumsé
engar málamiðlanir og bókin kom út á þýsku þrátt fyrir allt.
Gúmmí-Tarzan varð seinna meir langþekktasta verk Ole Lund Kirkegaard.
Tvær bíómyndir hafa verið gerðar eftir henni, nú síðast þrívíddarteiknimynd
sem varð að heita Gúmmí-T (2011) vegna einkaréttar Disney á vörumerkinu
Tarzan.
Um það leyti sem Gúmmí-Tarzan kom út var ég að leita að myndasögum í
fornbókabúð við Trianglen. Eða hímdi á bókasafninu beint á móti ameríska
sendiráðinu og las Tinna og Ástrík á dönsku og allt sem kom út eftir Ole
Lund, auk bannaðra frásagna af hroðalegum glæpum, myndskreyttra með
máðum svarthvítum ljósmyndum. Íslensku las ég ekki en pabbi las fyrir mig
Grettissögu, Sálminn um blómið og Góða dátann Svejk. Þess utan var ég að
leika mér við hina krakkana í húsinu, njósna um allsbera hippakommúnu
uppi á lofti, skrúfa niður nafnaskilti og fela þau eða stríða húsverðinum
þangað til hann elti okkur öskrandi út á götu. Tilvera okkar barnanna var
speglun á bókum Ole Lund um Albert og Virgil litla. Og á hverju horni leyndist
Fúsi froskagleypir í gervi stórhættulegra síðhærðra manna í leðurjökkum sem
við kölluðum „Rokkara“.
Flóðhestur á heimilinu (1978) var síðasta bókin sem kom út eftir Ole meðan
hann lifði. Þetta átti upprunalega að vera myndabók því Ole hafði dreymt