Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Síða 73
A f v e r k u m o g k ö n g u l ó m
TMM 2013 · 1 73
Hin hugsaða skáldsaga Musils nær líka að stækka viðfangsefnin meira
en áður hafði þekkst; þaðan í frá er ekkert hugsanlegt útilokað í list skáld-
sögunnar.
17
Þegar ég var þrettán eða fjórtán ára sótt ég tíma í tónsmíðum. Ekki vegna
þess að ég væri svona sérlega hæfileikaríkt barn heldur vegna varfærinnar
umhyggju föður míns. Þetta var í stríðinu og vinur hans, tónskáld af
gyðingaættum, varð að bera gulu stjörnuna; fólk var farið að forðast hann.
Faðir minn vissi ekki hvernig hann ætti að tjá honum stuðning sinn, en datt
einmitt þá í hug að fá hann til að kenna mér. Á þessum tíma voru íbúðir
gyðinga gerðar upptækar og tónskáldið hrökklaðist sífellt á nýjan stað, minni
og minni, og endaði, rétt áður en hann var fluttur í útrýmingarbúðirnar í
Terezín, í mjög þröngu húsnæði þar sem fólk hafði troðið sér í hvert skúma-
skot. Í hvert sinn sem hann flutti tók hann með sér litla píanóið sitt sem ég
lék hljómfræði- og fjölraddaæfingarnar mínar á en allt í kringum okkur var
ókunnugt fólk við iðju sína.
Það sem stendur eftir af þessu öllu er aðeins aðdáun mín á honum og
þrjár eða fjórar myndir. Einkum þessi: þegar hann var að fylgja mér út eftir
tímann nam hann staðar úti við dyrnar og sagði skyndilega: „Margir kafl-
arnir hjá Beethoven eru furðulega slappir. En það eru slöppu kaflarnir sem
auka enn gildi sterku kaflanna. Þetta er eins og grasflöt sem er nauðsynleg
til að við náum að njóta fallega trésins sem vex á henni.“
Undarleg hugmynd. Og það er enn undarlegra að ég skuli muna hana
enn. Kannski hefur mér fundist það heiður að meistarinn skyldi trúa mér
fyrir játningu, leyndarmáli, miklum klækjum sem aðeins innvígðir fá að
vita um.
Hvað um það, þessi stutta hugleiðing meistara míns á þessum tíma hefur
fylgt mér alla ævi (ég hef varið hana, ég hef barist gegn henni, ég hef aldrei
getað bælt hana niður); án hennar hefði þessi texti alveg örugglega aldrei
verið skrifaður.
En það sem mér þykir enn vænna um en þessa hugleiðingu sem slíka er
myndin af manninum sem hugleiðir upphátt vandann að semja listaverk,
fyrir framan barn, skömmu áður en hann lagði af stað í sitt hryllilega
ferðalag.
Þessi grein er hluti bókarinnar Svikin við erfðaskrárnar (1993) og er hér birt með
góðfúslegu leyfi höfundarins.
Friðrik Rafnsson þýddi