Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 77
Vi n n u m m i n n a : S t y t t u m v i n n u d a g i n n
TMM 2013 · 1 77
Einnig má sjá að langur vinnutími á Íslandi, miðað við sömu lönd, er engin
nýlunda. Vinnutíminn hefur vissulega styst, en hérlendis hefur fólk unnið
meira en íbúar annarra Norðurlanda að minnsta kosti frá 1958. Svipað gildir
um hin þróuðu Evrópulöndin.11 Svo má líka sjá að vinnutími hérlendis hefur
styst frá því í kringum hrun (2008), en ekki mikið. Þessi stytting er líklega
tímabundin – hún er líkleg til að hverfa í næstu uppsveiflu, því að hér er
trúlega aðeins um að ræða takmörkun á yfirvinnu (og aðrar ámóta aðgerðir)
til að stemma stigu við kostnaði vegna efnahagsþrenginganna sem nú ganga
yfir.
Vinnustundir á hvern vinnandi mann er ein leið til að mæla hversu mikið
er unnið í samfélagi. Sú leið er bara ein af nokkrum mögulegum. Önnur leið
er að skoða nokkurs konar heildarumfang vinnunnar í samfélagi, og hefur
það verið gert fyrir Ísland og fjölmörg önnur ríki.12 Til að geta reiknað það
út er byrjað á að kanna hve mikil atvinnuþátttaka viðkomandi samfélags
er, en atvinnuþátttaka er hlutfall fólks á vissu aldursskeiði (í þessu tilviki
15–64 ára) sem er í launaðri vinnu eða er að leita sér að vinnu. Á Íslandi var
atvinnuþátttaka 85,3% árið 2009, sem er meira en á öðrum Norðurlöndum,
meira en í þróuðustu Evrópulöndunum og meira en í Kanada og Banda-
ríkjunum. Í tölum OECD eru raunar engin lönd með meiri atvinnuþátt-
töku en Ísland. Svo þarf að huga að meðalvinnustundum á hvern vinnandi
mann. Er hér nú þegar búið að fara í gegnum þær tölur fyrir hin ýmsu lönd.
Því næst er atvinnuþátttaka margfölduð með meðalfjölda vinnustunda á
hvern vinnandi mann í viðkomandi samfélagi og deilt með 100.13 Útkoman
er eins konar vísitala sem má túlka sem meðalfjölda vinnustunda allra
sem eru á aldrinum 15–64 ára. Sé þetta gert fyrir nærri öll Evrópulönd,
Bandaríkin, Kanada, S-Kóreu, nokkur lönd í S-Ameríku og mörg fleiri (öll
OECD-löndin raunar) með tölum ársins 2009 og vísitölurnar bornar saman
milli landanna, þá kemur í ljós að hvergi var umfang vinnunnar meira en á
Íslandi árið 2009. Mikill munur var á Íslandi og hinum Norðurlöndunum,
en umfang vinnunnar á Íslandi var um 19,8% hærra en meðaltal umfangs
Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og Finnlands. Umfangið er greinilega úr
takti við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Sama gildir
um þróuðustu Evrópulöndin; þar var umfang vinnunnar mun minna en
hér árið 2009. Í þessu sambandi má benda á að Ísland og Suður-Kórea – sem
gjarnan er talið vinnusamasta samfélag jarðar – eru á svipuðu reki í þessum
efnum, Ísland með aðeins meira umfang. Við þetta eru þó fyrirvarar.14 Þó að
tölurnar séu frá 2009, er þess ekki að vænta að umfangið hafi breyst mikið
hérlendis. Atvinnuþátttaka á Íslandi var svipuð árin 2010 og 2009 og meðal-
vinnustundafjöldi vinnandi fólks var svipaður milli þessara ára.15 Ástandið
annars staðar er ekki líklegt til að hafa breyst í áttina að auknu umfangi
vinnunnar.
Það má færa fyrir því rök að umfang vinnunnar hérlendis hafi verið enn
meira á árunum fyrir 2009 (og jafnvel enn lengur en það): Atvinnuþátttaka