Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 78
G u ð m u n d u r D . H a r a l d s s o n
78 TMM 2013 · 1
var meiri á árunum 2004–2007 en árið 200916 og eins og sést á mynd 1 voru
vinnustundir einnig fleiri þá en á árinu 2009. Þessi tvö atriði verða til þess að
auka umfangið. Erfiðara er að segja til um hvort umfangið hafi verið meira
hér en í öðrum (OECD) löndum á árunum fyrir hrun – til að meta það þarf
frekari gögn. Rétt er að benda lesendum á að mikil atvinnuþátttaka á Íslandi
er ekki nýlegt fyrirbæri; atvinnuþátttaka hefur verið um og yfir 80% að
minnsta kosti frá því 1991.17
Þetta þarf að breytast. Vinnutími á Íslandi ætti vel að geta verið svipaður og
í Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi eða Frakklandi. Stytta ætti vinnudaginn á
Íslandi. Margir hugsa eflaust með sér að hugmyndin sé galin – og einhverjir
kunna að halda, að höfundur hafi hreinlega misst vitið. „Stytta vinnudaginn
í miðri kreppu?“ hugsa þeir. En þvert á móti, þá má færa góð rök fyrir stytt-
ingu vinnudagsins hérlendis. Þau verða sett fram á næstu síðum.
Skoðum samt fyrst söguna, sem snöggvast. Bæði hérlendis og annars stað-
ar í Evrópu.
Fordæmin og vinnutími
Vinnudagurinn hefur styst mikið í hinum iðnvædda heimi frá því í
iðnbyltingunni.18 Á Englandi um 1840, sem dæmi, vann meðalmaðurinn
um 3.000 klukkustundir á ári og margir eflaust meira. Undir lok tuttugustu
aldar var talan um 1.800 klukkutímar.19 Stytting vinnudagsins varð að
veruleika með lagasetningu, samningum og átökum. Svipaða sögu má segja
um önnur lönd.
Í Evrópulöndum eins og Þýskalandi og Frakklandi hefur vinnudagurinn
verið styttur með beinum aðgerðum á síðastliðnum áratugum. Á tveimur
síðustu áratugum tuttugustu aldar var vinnudagurinn styttur í áföngum í
Þýskalandi. Almennt gekk styttingin vel fyrir sig og engin neikvæð áhrif
urðu á hagkerfið – t.d. atvinnuleysi eða landsframleiðslu. Í Frakklandi var
ráðist í aðgerðir til að stytta vinnudaginn og var árangurinn ágætur þar
sömuleiðis. Styttingin hefur líka náð til landa eins og Bretlands, Belgíu og
Hollands.20 Vinnudagurinn hefur líka verið styttur í öllu fjarlægari löndum,
Chile og S-Kóreu.21
Markmiðið með styttingu vinnudagsins hefur verið misjafnt. Stundum
hefur það verið að minnka atvinnuleysi, stundum að gera samfélagið fjöl-
skylduvænna, stundum annað. Stytting vinnudagsins í S-Kóreu er dæmi um
hið fyrra og hið seinna. Styttingin í Þýskalandi og Frakklandi eru dæmi um
hið fyrra.22
Sagan sýnir að stytting vinnudagsins hefur almennt gengið vel fyrir sig.
Áhrif á atvinnu og framleiðslu hafa verið jákvæð og í flestum tilfellum hefur
framleiðni tekið kipp – þvert á það sem margir kunna að halda.23
Undanfarna áratugi – á meðan ýmis Evrópulönd styttu vinnudaginn –
hefur vinnudagurinn á Íslandi ekki styst að neinu ráði. Þetta má sjá á mynd