Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Qupperneq 100
S t e i n u n n H e l g a d ó t t i r
100 TMM 2013 · 1
Andlit flugmannsins er grafískt í skuggunum og birtunni frá mælaborðnu
þegar hann kallar hressilega aftur fyrir sig og spyr hvort ekki sé allt í lagi.
– Ég held að ég hafi verið að missa hann, svara ég og skammast mín þegar
ég finn að mér liggur við gráti. Mér finnst ég vera alein og ég er óendanlega
þreytt þar sem ég sit köld og dofin og dotta við hlið Jóns sem lagði af stað
í þessa ferð sem maður en endaði hana sem lík. Þegar vélin lækkar flugið
hrekk ég upp og stari á stækkandi ljósin á flugbrautinni. Rígheld mér í þau
með augunum þar til við erum lent.
Sjúkrabíll kemur fljótlega að flugvélinni. Bílstjórarnir eru reffilegir ná-
ung ar sem greinilega kannast við flugmanninn og þeir tala glaðlega saman.
Þegar ég nálgast þagna þeir og horfa á mig með ógeði.
– Eruð þið að koma að vestan? spyr annar bílstjórinn svo kurteislega og
reynir að láta ekki augun flökta frá mér.
– Já, en hann dó því miður á leiðinni, svara ég.
Það kemur hik á þá.
– Ja, við erum ekki í líkflutningum, segja þeir og líta hvor á annan.
Mér verður ljóst að ég stend ein ásamt mínu líki á flugbrautinni í hríðarbyl
um miðja nótt. Ég reyni að nota síðustu orkuna í smá vingjarnlegheit.
– Þið mynduð nú kannski redda þessu fyrir mig í þetta skiptið? segi ég
smjaðurslega. Ég meina, þið eruð komnir hingað hvort eð er …??
– Heyrið þið, ég þarf að fá börurnar aftur með norður! grípur flugmaðurinn
fram í um leið og hann hnusar út í loftið og horfir pirraður á óhreinindin.
– Æ, fyrirgefðu, hann kastaði upp á leiðinni, segi ég ósjálfrátt afsakandi.
Hann hnussar eitthvað um leið og við færum börurnar saman. Með sam-
stilltu átaki vippum við máttlausu líkinu á milli og eftir að flugmaðurinn
er farinn að þrífa börurnar, geðvondur og tautandi, sný ég mér aftur að
sjúkraflutningamönnunum sem samþykkja með semingi að leysa þennan
vanda minn. Ég stekk fegin inn í flugvélina eftir töskunni minni og sest svo
hjá líkinu aftur í sjúkrabílnum. Þeir renna hurðinni á eftir okkur og loka
með smelli. Það er ekki lengi gert að keyra á Landspítalann sem tekur á móti
okkur eins og upplýst ættaróðal í myrkrinu.
Bílstjórarnir rúlla börunum snaggaralega inn fyrir dyrnar og ég hálfhleyp
á eftir. Allt í einu eru allir horfnir og ég stend ein eftir á ganginum með
börurnar. Ég lít á úrið og sé að klukkan er hálffjögur. Það er kominn 24.
janúar. Dánardægur Jóns. Ég horfi á auða gangana í kringum mig og verð
allt í einu meðvituð um að það er æla á jakkanum mínum og einnig á tepp-
inu sem breitt er yfir líkið við hliðina. Línvagn stendur í horninu við enda
gangsins og ég gríp þar lak og breiði varlega yfir börurnar.
Svo geng ég til vaktmannanna sem sitja bak við rúðu nálægt útidyrunum
og banka í glerið. Þeir líta syfjulega upp.
– Ég var að koma úr sjúkraflugi að vestan, segi ég, en sjúklingurinn dó á
leiðinni. Ég þyrfti að fá að koma honum í geymslu í líkhúsinu hjá ykkur áður
en hann fer í krufningu.