Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Blaðsíða 101
S a m a s t a ð u r
TMM 2013 · 1 101
Þeir stara á mig, fölir í óþægilegri birtunni.
– Var hann innskrifaður hér á spítalann? spyr sá yngri.
– Nei, svara ég vandræðalega.
– Þá er ég hræddur um að þetta sé ekki okkar mál, segir vaktmaðurinn og
lítur niður á tölvuskjáinn í borðinu.
– Hvað gerir maður í svona tilfellum, Jónas? spyr hann eldri manninn sem
situr við hliðina og brosir vingjarnlega til mín.
– Tjah, það er náttúrlega sýslumannsembættið þar sem hann dó sem á að
sjá um þetta, segir hann og verður alvörugefinn.
Ég tek upp símann, hringi í símaskrána og fæ heimasímanúmer sýslu-
mannsins á Ísafirði. Eftir margar hringingar svarar syfjuleg rödd. Ég útskýri
fyrir honum hvernig málum er komið, að ég þurfi að koma líkinu í geymslu
og panta krufningu þar sem dánarorsökin sé óljós.
– Dó hann hér á Ísafirði? spyr röddin rám.
– Nei hann dó á leiðinni, einhversstaðar yfir Snæfellsnesi, svara ég.
– Þá er ég hræddur um að ég geti ekkert gert í þessu, vinan, segir hann og
ég heyri að honum er létt þegar hann kveður.
Ég næ mér í stól, sest hjá líkinu og flissa þegar mér dettur í hug að kannski
væri réttast að halda áfram að þræða sýslumennina símleiðis suður til
Reykjavíkur.
Eldri vaktmaðurinn, sá sem er kallaður Jónas, kemur til mín með kaffi í
plastmáli. Hann virðist vera að hugsa eftir svipuðum brautum því hann segir
brosandi: – Þú ættir kannski að tala við sýslumanninn í Mýrasýslu … eða
… hann dó nú reyndar í háloftunum … kannski heyrir þetta undir annað
yfirvald, hehe.
Ég nenni ekki að brosa.
Við þegjum bæði í góða stund og ég sötra kaffið fegin.
Við heyrum haltrandi fótatak fyrir aftan okkur. Gamall maður í snjáðum
hvítum slopp kemur eftir ganginum.
Ég sé fljótlega að þetta er Jósep gamli hjartasérfræðingur sem kenndi mér
fyrir nokkrum árum síðan.
Hann lyftir lakinu og ábreiðunni og horfir á líkið.
– Hann er hálfræfilslegur þessi sjúklingur sem þú ert að vaka yfir, segir
hann og brosir.
– Ég var að koma með hann í flugi að vestan, en hann dó á leiðinni. Ég
er ekki alveg viss úr hverju hann fór, bæti ég við. En hann var með þekktan
hjartasjúkdóm.
– Kom eitthvað upp á? spyr hann um leið og hann breiðir lakið aftur yfir
líkið.
– Hann fór í hjartsláttaróreglu og ég náði honum ekki í gang aftur. Raf-
magnið var búið eftir eitt stuð, segi ég afsakandi.
– Þá hefur hann örugglega bara fengið kransæðastíflu og hún farið með
hann. En þú getur rætt það við hann Böðvar meinafræðing á morgun um