Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Side 108
„ G e s t u r v e s t f i r s k i “
108 TMM 2013 · 1
ast nokkuð til hægri hliðar. Skarpleitur er hann og fölleitur, nefið beint og
lítið eitt hafið að framan. Háleitur er hann og horfir jafnan upp til vinstri
handar svo að hnakkinn liggur þá niður á ið hægra herðablað. Þrjá hluti á og
Þórbergur þá er honum eru helgir og dýrir og verða honum aldrei viðskila:
Eitt er stafur grænn að lit og rendur silfri. Þann staf hefur Þórbergur þegið
að gjöf. Fylgir honum sá kostur að enginn gengur stuðningslaust sem stafinn
hefur. Annar hluturinn er hattur ljósgrár að lit. Honum fylgir sú náttúra að
nota má hann í hvaða veðráttu sem fyrir kemur nema í norðurbyljum. Þriðji
hluturinn er reykjarpípa. Hún er dönsk og það eina er Þórbergur vill danskt
hafa. Það fylgir með pípunni að hver sá er ber hana í munninum hefur lyst
til að neyta tóbaks.
Eigi er Þórbergur kvennamaður mikill en þó hefur hann sagt nokkrar
sögur frá því er hann hafi með kvinnum dvalið. Það segir Þórbergur og að
oft hafi hann orðið skotinn í Iðunnarmeyjum13 en aldrei ástfanginn.
Það var á einum vetri er Þórbergur bjó við harðan kost að hann gjörði það
heit að verða ungmennafélagi, ef sér skyldi þá mega betur vegna. Fór hann
til félagsins. Var hann þar lítils virtur í fyrstu en síðar þá hlaut hann þar
vinsældir og virðingu allmikla, svo að hvergi hafði Þórbergur verið betur
metinn, en mjög skipti hann á stöðum þar.
Þórbergur gekk fyrst í málfundaflokk14 félagsins eins og þeirra manna
er siður er nema vilja mælsku og láta til sína taka á félagsfundum. Varð
Þórbergur þá brátt mælskur maður og kenndi öðrum. Kom svo að lyktum
að Þórbergur hafði þar einn mál á öllum fundum. Þá var þar og í flokknum
ásamt fleirum merkum maður sá er Þorleifur15 hét. Hafði hann verið í
flokknum frá byrjun. Hann var einnig mælskumaður mikill og kunni hann
því illa er hann fékk eigi notið mælsku sinnar fyrir Þórbergi. Urðu þeir
ósáttir útaf að lokum, en áður voru þeir í miklu vinfengi. Þá var Gvöndur16
formaður í flokknum, hann var mikill vinur þeirra beggja og lét þá báða
afskiptalausa þar til hann fékk engu um ráðið.
Hafði Þorleifur meira fylgi, en Þórbergur stökk brott úr flokknum og þótti
mörgum það ver farið.
Þá tók Þórbergur að tala á fundum félagsins, hafði hann þar mál á móti
flestum mönnum og varð honum enginn yfirsterkari í öðru nema Brandur17
og Magnús18.
Það er háttur Þórbergs þá er hann talar á fundum að hann hefur jafnan
tvenn rök fyrir sínu máli. Fyrst þá er hann skýrir frá málavöxtum og svo
önnur til vara ef á móti er mælt.
Þórbergur hefir og ritað í Skinfaxa: Fyrst orkti hann kvæði það er „Nótt“
heitir og er þetta upphaf að: „Nátt-tjöldin hrynja, himininn rökkvar, húm-
skuggum sveipast foldarbrá. Kvöldblærinn kyssir láð og lá. Ljóða hrannir við
bakkann dökkva.“ En endirinn er svona: „Sjá kórónu gylta og krossa háa!
Sjá kaupmannsins glys! – og lífin, sem hjara við hlutinn sinn smáa!“ Er það
kvæði merkilegt og hefur það gert Þórberg frægastan.19