Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 109
Þ ó r b e r g s þá t t u r Þ ó r ð a r s o n a r
TMM 2013 · 1 109
Það var eitt sinn er ritnefndarskipti urðu að Þórbergur ritaði svo mikið
mál í Skinfaxa að ritnefnd kom engu öðru að. Voru það og allt skammir um
ritnefndina og þó sannar. Komst Þórbergur í ósætti við nefndina og vildi eigi
framar skrifa í Skinfaxa og ritnefndin því síður þiggja. Þórbergur gekk og á
sama vetri í Tóbaksbindindisflokkinn, hugði hann sér það sparnað mikinn.
Leið svo til fjórðungsþings. Þá var Þórbergur kosinn fulltrúi, því hann var
svo málsnjallur. Varð hann þingmaður með Jóni Dúasyni og komst í mikla
kærleika hjá honum því Jón var forgöngumaður alls tóbaksbindindis.
En er á þing kom þá var Þórbergur orðinn þreyttur á tóbaksleysinu og
illa haldinn og bað þá um tóbak, en Jón neitaði Þórbergi um það. Þá varð
Þórbergur illur í skapi og formælti öllu tóbaksbindindi og Jóni með. Skrifaði
hann síðan langt mál um Jón það er kunnugt er orðið og skráð er í Skinfaxa
og valdi Jóni mörg þung orð og ljót.20 En Jón gerði það fyrir sálu sinni að
hann fyrirgaf Þórbergi það allt er hann fór af landi brott, og hefur Þórbergur
síðan iðrast mjög breytni sína við Jón.
Þá var Þórbergur kosinn gerðabókarritari, því hann var maður ritfróður,
en þá ritaði Þórbergur það eitt er honum sýndist svo sem vænta mátti. Sleppti
hann sumum atriðum með öllu en skrifaði annað um of. Svo var þegar
ný ritnefnd var kosinn til Skinfaxa þá ritaði Þórbergur það hvergi og varð
ritnefndin reið Þórbergi og ætlaði að slíta starfinu. En Þórbergur hótaði að
skrifa skyldi hann í Skinfaxa mikið mál og gott sér til friðunar. Fór svo að
síðustu að jafnvel Brandur varð Þórbergi mótsnúinn og kvað hann ekki rita
fundargerðir á þann hátt sem bæri. Sagði þá Þórbergur af sér starfinu.
Síðast var Þórbergur kosinn í mállýtanefnd því hann er maður svo mikill
og skarporður að öllum ógnaði en þar á eftir fylgdi mállýtasafn svo mikið
að menn hryllti við. Og er Þórbergur las upp mállýtin þá las hann svo mikið
safn mállýta eftir Gvöndi að Gvöndur kvaðst eigi sjálfur skilja hvað margar
vitleysur Þórbergur eignaði sér eða hvað mörgum hann bætti sjálfur við.
Voru skýringar Þórbergs með dæmum öllum og tilvitnunum svo mikið
mál og flókið að enginn skildi hvað voru málvillur, hvað skýringar og hvað
dæmi, því Þórbergur færði margar vitleysur hinum sömu til viðbótar svo
að safnið yrði fullkonmara, en bæði Gvöndur og fleiri kváðu þess litla þörf
og er Gvöndur ósáttur við Þórberg síðan. Vænta menn að Þórbergur færi
skaplegar næst.
Nú er greint frá öllu því er menn vita um æfi Þórbergs bæði að því er hann
hefur sjálfur sagt og svo aðrir góðir menn, þeir er best vita. Og er flest af því
svo rétt skráð að fróðir menn hafa það fyrir satt haft. Lýkur hér með þætti
Þórbergs Þórðarsonar.
Skráð hefir Gestur vestfirzki.
Soffía Auður Birgisdóttir bjó til prentunar.