Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 132
Þ o r va l d u r Þ o r s t e i n s s o n
132 TMM 2013 · 1
Heimir: Já, láttu mig heyra það. Sjá ég boða yður mikinn fögnuð og svo fram-
vegis.
Davíð: Stöðugt fjölgar stríðsmönnum hans. Þeir stíga æ fleiri upp í þann
dásamlega náðarvagn. Við fögnum þeim sem þannig vilja aka frá dýrð til
dýrðar, berjast í bæn og framganga fyrir náðargjöfina.
Heimir: Segðu mér Hervör, líður þér ekki vel?
Hervör: Jú.
Heimir: Þér hefur ekki alltaf liðið vel.
Hervör: Nei. Áður gekk ég döpur um dallinn.
Heimir: Dalinn Hervör. Dalinn. Rímar á móti kvalinn.
Hervör: Hvalinn?
Davíð: Hver beygja sem bægir okkur frá freistingunni er kraftbirting hins
smurða. Þau andans vopn sem hann leggur okkur til, herðum við í hjartanu í
brjósti okkar en beitum í höfði okkar með tungunni …
Heimir: Sjáðu, svona!
Davíð: Þeim raka og titrandi sprota sem á rætur sínar djúpt í honum og sýgur
sinn næringarvökva beint úr brjósti hans.
Heimir: Ef hönd þín hneykslar þig … og svo framvegis. Gott Davíð. Ekki meira
í dag. Orðið var hjá Guði. Og nú er það hér. En hvað er orðið af Guði? Vorum
við ekki örugglega búin að syngja? Hervör? Einhver vitnisburður svona í
lokin?
Hervör: Þegar Jesús kom inn í mitt líf, þá …
Heimir: Í stuði með Guði. Gott. Og ekki orð um það meir. Fariði nú og gjörið
allar þjóðir að lærisveinum mínum og svo sjáumst við á sunnudaginn þegar
heilagur andi mætir á svæðið. Stella. Voffinn var að spyrja um þig.
Stella: Er hann ekkert betri?
Heimir: Ég er hræddur um ekki. Og án þín væri hann áreiðanlega lagstur til
hinstu hvílu. Finndu hvernig hann … úff já!
* * *
Hrífa: Nóg!
Berklar: Góður Hruni! Alveg ertu himneskur, helvískur!
Hruni: Mín er ánægjan.
Hnota: Og þá mín!
Hnúður: En ekki skiljum við stelpukindina Stellu eftir í slíkum vargaklóm?
Berklar: Vilja sumir meira?
Hnúður: Væri ekki nær að ljúka því sem hér er hafið heldur en rjúka strax af stað
í nýja sögu? Eða hvernig lýkur þessari?
Spelka: Hverri? Þessi er þegar í gleymsku fallin!
Berklar: Síðan hvenær vildi Hnúður brenna báða enda? Þeim barnunga eldhuga
hélt ég hugnuðust betur fyrstu neistar en bálið sjálft, hvað þá lokakaflans
kulnandi glæður?
Hnúður: Æ finnum Stellu öruggan stað – í þínu háfleyga stuðlabergi ef ekki vill
betur. Okkur munar varla um slíkt?