Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Síða 42
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
42 TMM 2015 · 3
Í tvíburamerkinu líkt og Marilyn Monroe?
Já, en samt ekki fædd sama dag. Þær Linda Vilhjálms, skáldsystir okkar,
fæddust hins vegar báðar 1. júní.
Viltu segja mér frá umhverfi bernskustöðvanna?
Háaleitishverfið er innilokað af miklum umferðaræðum, þannig að við
krakkarnir leituðum óskaplega lítið útfyrir það. Lífið snerist í kringum
Álftamýrarskólann og margir voru í íþróttafélaginu Fram. Stóra spurningin
þegar maður var sendur út í búð var hvort maður ætti að fara í Víði eða upp
í Söebeck. Ég var í fimleikafélaginu Fylki með bestu vinkonu minni og á
sunnudögum fór ég í sunnudagsskóla sem var starfræktur í Álftamýrarskóla.
Þar hlustaði ég á Biblíusögur og fékk fallega biblíumynd í lokin sem ég setti
inn í bók og geymdi.
Ertu trúuð?
Já, ég trúi á Guð og spjalla stundum við Hann og Hann svarar á móti á
sinn hátt.
Hafa foreldrar þínir haft áhrif á þig og á bækurnar þínar?
Já, óneitanlega. Mamma mín las mikið og á veturna fórum við í Norræna
húsið um helgar þar sem foreldrar mínir lásu sænsku blöðin því þau pabbi
höfðu lært og starfað í Svíþjóð. Síðan var komið við í bókasafni Norræna
hússins til að athuga hvað hefði komið út af nýjum bókum á Norðurlönd-
unum. Farið var á upplestra og fylgst með bókmenntalífinu. Í næstu blokk
bjó Sigurður A. Magnússon rithöfundur og hann sá maður fara annaðhvort
í Víði eða í Söebeck. Ég vissi því að rithöfundar voru til, að minnsta kosti
hann Sigurður. Svo bar ég gæfu til að hafa góða kennara í barna- og mennta-
skóla sem höfðu trú á mér og hvöttu mig til að skrifa.
Varstu snemma læs – hver kenndi þér að lesa? Lastu mikið sem barn? Hver
var uppáhaldsbókin þín þegar þú varst lítil?
Mamma mín kenndi mér að lesa. Ég var læs þegar ég byrjaði í skólanum
og var send í þroskapróf til skólasálfræðings þegar nokkrar vikur voru liðnar
af sex ára bekk. Í kjölfarið var ég send upp um bekk og var því alltaf vetur á
undan í skóla. Eina bókasafnið í hverfinu var skólabókasafnið og þar dvaldi
ég oft eftir að kennslu lauk. Síðan fór fjölskyldan stundum á Bústaðasafnið.
Ég las bækurnar sem ég átti aftur og aftur og mér fannst alltaf óskaplega
gaman að lesa. Svo teiknaði ég myndir og fór smám saman að semja sögur
við myndirnar. Einn daginn hætti ég að teikna myndirnar en hélt áfram að
segja sögur.
Ég las bækur Astridar Lindgren mikið. Mér fannst Á Saltkráku ákaflega
skemmtileg bók en svo las ég bara allt sem tönn á festi, svo sem Sörla son
Toppu, Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton, Tinnabækurnar, Í afahúsi,